Fréttir

Eina sérhæfða BMW partasala landsins á Ásbrú
Mánudagur 5. júlí 2021 kl. 06:58

Eina sérhæfða BMW partasala landsins á Ásbrú

Á Ásbrú er að finna einu sérhæfðu BMW bílapartasölu landsins sem Skúli Rúnar Reynisson á og rekur, Partout BMW bílapartasölu. Eldri bróðir Skúla Rúnars hafði áhrif á hann á sínum tíma með áhuga á BMW bílum. Skúli Rúnar byrjaði að rífa bíla árið 2007, var að dunda í þessu á kvöldin og með annarri vinnu. „Með árunum jókst eftirspurnin eftir notuðum varahlutum og árið 2018 tók ég þá ákvörðun að stofna fyrirtæki utan um þennan rekstur og einbeita mér að BMW bílum,“ segir BMW partasalinn.

450 bílar hafa farið í gegnum hendur Skúla Rúnars

Frá því Skúli hóf niðurrif á bílum árið 2007 hafa um 450 bílar farið í gegnum hendur hans og árlega eru 30 til 35 bílar fullrifnir. Niðurrifið fer eftir ákveðnum reglum Heilbrigðiseftirlitsins, bílarnir standa í portinu í einhvern tíma áður en þeir eru teknir inn og rifnir niður, allur vökvi er tekinn úr bílunum, rafgeymar fjarlægðir og passað upp á öll spilliefni. Síðan er það Skúla að meta hvaða hlutir geti farið í partasölu, hvað geti farið í endurvinnslu og hverju skuli farga.

Forfallinn BMW aðdáandi

Frá því Skúli hóf að rífa BMW bíla var ekki aftur snúið með áhugann á þeim. Skúli Rúnar á sjálfur fimm BMW fornbíla og í spjalli á samfélagsmiðlum er auðvelt að sjá og skynja þennan áhuga og um leið þekkingu á bílunum. „Mest keyrði BMW bílinn sem ég hef fengið í mínar hendur var keyrður um 480 þúsund km en síðan hef ég séð bíla sem hafa fengið gott viðhald og hafa verið notaðir í leigubílaakstur og ökukennslu keyrða milli 700–800 þúsund km. Allt spurning um gott viðhald,“ að mati Skúla.

Partasalan hefur sýnt fram á notagildi sitt og þótt Skúli vinni yfirleitt langan vinnudag þá er hann ánægður að vera í vinnu sem hefur með hans áhugamál að gera. Hann er einn eins og er en aldrei að vita nema þörfin verði meiri og kalli á aukinn starfskraft. Skúli leggur metnað í vinnuna sína og auk þess að auglýsa sig í gegnum samfélagsmiðla þá er farið að spyrjast út hvað hann sé að gera og verkstæði leita jafnvel til hans með varahluti þegar þess ber við. „Partasalan er líka góð leið til að halda eldri BMW bílum í umferð,“ bætir Skúli við.

Skúli er alltaf í vinnunni

Jafnvel þegar Skúli er í ferðalögum með fjölskyldunni og er að ferðast um landið þá er ferðin nýtt til að koma varahlutum til skila. Hann hefur jafnvel afhent varahlut í gegnum mjólkurkælinn í Bónus.

VF mynd og texti: Jón Hilmarsson