Aukin hætta á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni gæti varað í nokkrar vikur
Veðurspá næstu daga sýnir lægðagang yfir landinu, sem gerir ráð fyrir suðvestan og sunnan stormi og úrkomu. Þessi veðurskilyrði geta haft áhrif á mælingar sérstaklega hvað varðar skyggni og næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS-mælinga. Veðurstofan mun áfram fylgjast náið með þróuninni, en fólk er hvatt til að fylgjast með veðurviðvörunum og gæta aðgátar við ferðalög.
Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris og kvikusöfnun undir Svartsengi. Eins og greint var frá í frétt í síðustu viku er magn kviku undir Svartsengi komið að neðri mörkum þess rúmmáls sem talið er að þurfi til þess að koma af stað næsta kvikuhlaupi. Ef horft er til síðustu eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni hafa þau byrjað allt frá þremur dögum upp í fjórar vikur eftir að neðri mörkum er náð. Þetta þýðir þó ekki að það sé öruggt að næsti atburður hefjist innan mánaðar, heldur sýnir reynslan að það sé líklegasta sviðsmyndin. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands.
Færslur á GPS-stöðinni HS02 á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (3. febrúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sjö eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. ágúst og 20. nóvember 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Skjáltavirkni við Sundhnúksgígaröðina hefur verið með minna móti síðan að síðasta gosi lauk 9.desember. Einungis eru að mælast örfáir skjálftar á dag. Suma daga síðustu vikuna hefur verið slæmt veður sem hefur haft áhrif á næmni skjálftakerfisins, þannig að allra minnstu skjálftarnir hafa mögulega ekki mælst.
Hættumat gildir til 11.febrúar að öllu óbreyttu.