Fréttir

Anna Sofia tilnefnd til menntaverðlauna
Anna Sofia Wahlström. Mynd af vef Reykjanesbæjar.
Mánudagur 12. október 2020 kl. 09:34

Anna Sofia tilnefnd til menntaverðlauna

Anna Sofia Wahlström, kennari við leikskólann Holt í Reykjanesbæ, hefur verið tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2020 fyrir framúrskarandi kennslu og þróunarstarf í tengslum við innlend og alþjóðleg verkefni sem beinast að því að efla skapandi leikskólastarf með áherslu á læsi og lýðræði.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Að baki verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.