Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Sveitarfélög í brennidepli
Sunnudagur 3. maí 2020 kl. 10:00

Sveitarfélög í brennidepli

Sveitarfélög um allt land verða fyrir margháttuðu álagi í COVID-19-faraldrinum og þau eru misvel undir það búin. Í einhverjum tilvikum ræður stærðin miklu, í öðrum skiptir mála hvaða atvinnugreinar vega þyngst og í sumum er um að ræða misvægi á milli framlaga ríkisins til alls konar verkefna og hraðra breytinga samfélaginu; íbúafjölgunar eða atvinnumynsturs.

Á Suðurnesjum er misvægið mjög áberandi. Málefni Suðurnesja hafa verið til skoðunar í ráðherraskipaðri nefnd og er aðgerðaráætlun á lokametrunum. Lagt er til að 250 milljónir króna gangi í fyrstu til framkvæmda skv. henni, auk annarra framlaga og viðfangsefna á vegum einstakra ráðuneyta og sveitarfélaganna sjálfra. Einnig verður ráðist í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir um fjóra milljarða króna.

Fólk býr á heimilum

Beinn stuðningur ríkisins við fyrirtæki og heimili (lesist: fólk) með tveimur aðgerðaráætlunum er orðinn víðtækur. Myndarlegar upphæðir ganga núna til geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu, átaks gegn heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og viðkvæmum hópum. Til stuðnings tómstundastarfi barna og virkni foreldra langveikra barna og til úrræða við félagslegri einangrun fólks, til fjölgunar alls kyns námsúrræða og einnig til sérnámskeiða fyrir atvinnuleitendur og til tímabundinna starfa námsmanna. Stutt er við aukin félagsstörf aldraðra og öryrkja, félagslegur stuðningur aukinn við fjölskyldur með fötluð börn og börn af erlendum uppruna og fjölmörg heimili fá hækkaðar barnabætur og viðbótaframlag er greitt tekjulágum heimilum með börn. Fleira má nefna, m.a. fæst fé úr Fasteignasjóði sveitarfélaga til þess að bæta aðgengi og starfsumhverfi fatlaðs fólks.

Fyrirtæki eru fólk

Lokunarstyrkir fást til fyrirtækja er var skipað að hætta starfsemi. Ríkistryggð stuðningslán fást til minni fyrirtækja til viðbótar við mun hærri brúarlán til allra. Hlutastarfabætur ríkisins renna áfram beint til launamanna, fresta má greiðslu tekjuskatts lögaðila vegna 2019 og jafna á hagnaði þess árs móti tapi ársins 2020 og reglum um eftirgjöf skulda lögaðila er breytt. Skattaívilnanir vegna nýsköpunar- og sprotastarfsemi eru auknar og umhverfi beinna styrkja bætt. Aðstoð við fyrirtæki er að stórum hluta aðstoð við launamenn og launamenn og einyrkjar eiga heimili. Tal um að sneitt sé framhjá heimilum, og fyrirtækjum hyglað fremur en fólki, er dapurlegur útúrsnúningur og pólitísk brella. Á sunnanverðu landinu kemur hrun ferðaþjónustunnar fram með mjög alvarlegum afleiðingum. Við því verður brugðist með æ meiri þunga, m.a. í þriðju aðgerðaráætluninni, um leið og hugað er vandlega að því hvernig risaálaginu á ríkissjóð og Seðlabanka verður mætt.

Greining á stöðu héraða er leiðandi

Tekjutap sveitarfélaga er augljóst og því er misskipt. Tillögur um að lækka gjöld enn frekar heyrast, jafnvel gefa fasteignagjöld eftir, einkum frá fyrirtækjum. Miklar áhyggjur af Jöfnunarsjóðnum eru augljósar. Óljóst er hve mikil lækkunin verður en gera má ráð fyrir að þær verði fjórir til fimm milljarðar króna. Því verður 1,5 milljarði króna af bundnu fjármagni sjóðsins varið til greiðslu framlaga í ár og dregið úr fyrstu áhrifum af tekjufallinu. Frekari umræða um málefni sjóðsins fer fram innan samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga, ásamt öðrum aðgerðum sem snúa að sveitarfélögunum. Ráðherra hefur falið Byggðastofnun að vinna greiningu á þeim vanda sem blasir við einstökum sveitarfélögum og svæðum, m.a. vegna hruns ferðaþjónustunnar. Að einhverju leyti munu átaksverkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mæta þeim erfiðleikum, en greina þarf frekar sértækar aðgerðir og áskoranir einstakra svæða. Minni séraðgerðir eru nokkrar, t.d. fjárveiting til stafrænnar þróunar á vegum sveitarfélaga til að bæta þjónustu og auðvelda samskipti. Og fé verður veitt í gegnum byggðaáætlun til fámennra byggðarlaga sem takast nú á við sérstakar áskoranir vegna COVID-19-faraldursins, m.a. á sviði félagslegrar þjónustu.

Ari Trausti Guðmundsson,
þingmaður VG í Suðurkjördæmi