Brons
Brons

Aðsent

Öflugt atvinnulíf, undirstaða nýrra tekna
Sunnudagur 12. október 2025 kl. 05:21

Öflugt atvinnulíf, undirstaða nýrra tekna

Það eru gerðar miklar kröfur til sveitarfélaganna á Íslandi. Ekki einungis af íbúum þeirra, heldur hefur ríkisvaldið sett auknar skyldur á sveitarfélögin án þess að þeim skyldum fylgi auknar tekjur. Flest sveitarfélög hafa brugðist við með því að hækka gjaldskrá sveitarfélaganna og auka skatttekjur sínar, en tekjustofnar sveitarfélaganna eru ekki eins og hjá venjulegu fyrirtæki. Þar er í flestum tilfellum um að ræða þjónustugjöld sem eiga að standa undir viðkomandi þjónustu og kostnaði við málaflokkinn sem íbúarnir greiða og útsvar.

Við íbúarnir í Reykjanesbæ höfum tekið á okkur stóran skammt af hækkuðum gjöldum og kostnaði vegna uppbyggingar í samfélaginu. Þegar skuldahlutfall bæjarsjóðs var komið niður í ásættanlega stöðu og fram undan var tími endurheimtra lífsgæða í formi lægri gjalda og skatta ríður yfir covidfaraldur og mygla herjar á opinberar byggingar og skóla.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Áföll og uppbygging

Ég sem íbúi í þessum bæ sem á ekki lengur börn sem sækja skóla í sveitarfélaginu hef eins og aðrir fylgst með þessari holskeflu áfalla sem mygla í skólabyggingum hefur haft á skólasamfélagið og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins okkar. Öll þessi áföll hafa gerst frá því að ég flutti hingað árið 2003 og á sama tíma hefur sveitarfélagið mitt tekist á við að byggja upp innviði og þjónustu fyrir tvöföldum íbúa á 22 árum. Þegar litið er til baka hefur sveitarfélagið tekið stórstígum framförum í öllum umhverfismálum og þjónusta þess og innviðir á við það besta sem gerist á Íslandi. Og því til viðbótar var ekkert sveitarfélag á Íslandi sem axlaði meiri ábyrgð og kostnað af hælisleitendum en Reykjanesbær.

Ég hef verið ófeimin við að segja það að allan þennan tíma þá hef ég tekið ofan fyrir sveitarstjórnarmönnum í Reykjanesbæ að komast í gegnum þessa mörgu og þykku skafla sem við höfum saman þurft að takast á þegar hríðin var sem mest.

Það er þess vegna ekkert óeðlilegt að mönnum hafi greint á í meðferð fjármuna bæjarins og hvernig tekjurnar hafa verið sóttar í vasa okkar bæjarbúa. Þar finnst mér að allir hafi átt sína góðu stundir og líka þær slæmu.

Öflugt atvinnulíf undirstaða nýrra tekna

Nú vinnur bæjarstjórnin að fjárhagsáætlun fyrir kosningaárið 2026 og eðlilega verður öllu til tjaldað til að vopna baráttuna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí á næsta ári. Tekist verður á um gjaldastefnu og framkvæmdir, þarfar og óþarfar, mikilvægar og minna mikilvægar. Í mínum huga er ekki lengur hægt að fara neðar í vasa skattborgara í bænum til að afla frekari tekna fyrir sveitarfélagið. Nú þarf að fara nýjar leiðir, sem felst í sókn og vörn fyrir atvinnulífið. Í vörn fyrir þau fyrirtæki sem eru hér í bænum og fjárfestar af höfuðborgarsvæðinu ásælast og flytja nú höfuðstöðvar rótgróinna fyrirtækja burt frá Reykjanesbæ inn á höfuðborgarsvæðið. Hér eru fjölmennum skrifstofum lokað, fyrirtækin flytja í burtu og þjónustan og samfélagslegt framlag þeirra hverfur annað. Ég hringdi í eiganda fyrirtækis sem héðan var flutt og hafði stutt Skötumessuna okkar dyggilega í tæp 20 ár. Nýi eigandi spurði mig, „hvað er í því fyrir mig?“ Hann taldi sig engar skyldur hafa lengur gagnvart samfélaginu sem var ástæðan fyrir vexti og tilurð fyrirtækisins sem hann flutti í burt frá okkur. Það verða ekki margir stuðningsmenn íþróttafélaganna sem fara niður í Krossmóa og fá stuðning frá Samkaupum til rekstur félaganna, eða til að fá glaðning fyrir herra- og konukvöldin þrátt fyrir að búðirnar mali gull. Hvaða fyrirtæki fer næst ef við stöndum ekki föst í vörninni?

Besti bærinn

Við þurfum að hefja stórsókn fyrir öflugra atvinnulíf í Reykjanesbæ, fjölga eggjunum í körfunni og vera óþreytandi að sækja og bjóða nýjum fyrirtækjum aðstöðu á besta atvinnusvæði á landinu. Hvernig væri að bæjarstjórnin hefði samband við nefnd innviðaráðherra um strandsiglingar og benti nefndinni á tækifærin í Helguvíkurhöfn. Innan fárra ára þarf að koma 80 þúsund tonnum af laxi frá Vestfjörðum í flug og skip. Umhverfisvænar og traustar strandsiglingar nokkrum sinnum í viku að Vestan í Helguvík, þar sem stórskipahöfn og bestu samgönguæðar við alþjóðaflugvöllinn í 15 mínútna akstursfjarlægð frá skipshlið, og klukkustundarakstur í Faxaflóahafnir og Þorlákshöfn. Hafnsækin þjónusta og tækifæri þegar við bætist 40 þúsund tonna laxeldi Samherja á Reykjanesi er nýja ævintýrið okkar á Suðurnesjum. Þarna verða til krónurnar sem sveitarfélaginu vantar í kassann og hlífa vösum íbúanna. Ég gæti lengi talið upp afleiddu störfin og nýsköpunina sem mun skjóta upp kollinum í kringum þetta atvinnulíf sem er að gerast í þessum töluðu orðum. Og gleymum ekki því góða sem er fyrir, gagnaverin, Algalíf, uppbygging í ferðaþjónustu og fiskvinnslan sem skilar alltaf sínu.

Við búum í landi tækifæranna, en við verðum að halda í fyrirtækin, hvert starf, fjölga þeim og auka verðmæti starfanna. Það er grunnurinn að því að samfélagið okkar rís undir þeim skuldbindingum og kröfum sem við gerum til þess, án þess að hækka skatta á íbúana. Það kostar þrotlausa vinnu og dugnað áhugasamra sveitarstjórnarmanna að bæta kjör okkar íbúanna í „Besta bænum, Reykjanesbæ.“

Ásmundur Friðriksson
rithöfundur og fv. alþingismaður.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025