Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Krabbamein á Suðurnesjum og mengun
Mánudagur 14. júní 2021 kl. 14:52

Krabbamein á Suðurnesjum og mengun

Undirritaður hef lagt fram á Alþingi þingsályktun þess efnis að heilbrigðisráðherra verði falið að gera samning við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi krabbameina annars staðar á landinu.

Einnig verði könnuð tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu og loks yfirfarnar skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Um þetta verði gerð heildstæð skýrsla sem lýsir þeim gerðum krabbameina sem hækkuð eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum og loks verði borinn saman styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda. Ráðherra kynni síðan niðurstöður fyrir Alþingi að rannsókn lokinni. Ákvörðun um næstu skref verði síðan tekin í framhaldinu.

Public deli
Public deli

Suðurnesin með hæsta nýgengi krabbameina á landinu

Samkvæmt nýlegri könnun á búsetu og krabbameinum hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins, hafa Suðurnesin hæst nýgengi krabbameina af öllum stöðum á landinu (sjá töflu) yfir tímabilið 2009–2018. Almennt hafa höfuðborgir og aðrar stærri borgir gjarnan hæst nýgengi þegar krabbamein eru borin saman eftir búsetu. Á Íslandi eru nú Suðurnesin komin upp fyrir höfuðborgarsvæðið hjá körlum og eru á svipuðu róli og höfuðborgarsvæðið hjá konum.

Samtals greindust rúmlega 1.000 krabbamein á Suðurnesjum yfir tíu ára tímabil. Dreifing krabbameinanna var svipuð og á landsvísu, þ.e. hæst nýgengi krabbameina var í brjóstum kvenna og blöðruhálskirtli karla, þar á eftir í lungum og ristli hjá báðum kynjum. Á Suðurnesjum var t.d. áberandi hátt nýgengi krabbameina í lungum og leghálsi en skoða þarf muninn varðandi fleiri gerðir krabbameina.

Orsakaþættir verði kannaðir

Nauðsynlegt er að kanna betur hugsanlega orsakaþætti, bæði efnafræðilega og lífstílstengda þætti.

Samkvæmt lýðheilsuvísum Landlæknisembættisins er t.d. tíðni reykinga í Reykjanesbæ há miðað við aðra staði en 85% lungnakrabbameina orsakast af reykingum og mæting í leit að leghálskrabbameini hefur verið slakari en annars staðar. Krabbameinsfélagið telur hins vegar að ekki sé hægt að útiloka að aðrar orsakir skýri einhvern hluta af hækkuðu nýgengi. Nauðsynlegt er því að fara yfir skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Í þingsályktuninni er lagt til að gerð verði heildstæð skýrsla sem lýsir nýgenginu og þeim gerðum krabbameina sem hækkuð eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum og loks að styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi verði borin saman við lista IARC (Alþjóðastofnunar um krabbameinsrannsóknir) yfir krabbameinsvaldandi efni.

Undirritaður telur brýnt að skoða málið ítarlega. Ef marktækur munur er á tíðni krabbameins á Suðurnesjum annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar er mikilvægt að fá fram um hvaða mein sé að ræða og orsakaþætti. Suðurnesin ættu undir eðlilegum kringumstæðum að hafa heldur lægri krabbameinstíðni en höfuðborgarsvæðið, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu.

Birgir Þórarinsson.
Höfundur er þingmaður ­Miðflokksins.