Ert þú góð fyrirmynd í lestri?
Dagana 13. og 14. september fóru 16 kennarar af öllum stigum í Akurskóla á læsisráðstefnu HA á Akureyri til að kynna sér nýjustu rannsóknir í læsi. Ráðstefnan hafði yfirskriftina Hvað er að vera læs? Þar sóttu kennarar fjölmarga fyrirlestra og málstofur sem tengjast þessu mikilvæga verkefni. Ráðstefnan var mjög áhugaverð og komum við heim með fullt af nýjum verkfærum í kistunni okkar.
Lestur er lykill að þekkingu og þroska. Það er mikilvægt að allir lesi reglulega og nýti sér meðal annars bókasafnið í skólanum og í bænum. Lestur eykur lesfimi og góð lesfimi auðveldar allt nám. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er traust kunnátta í móðurmáli meginundirstaða staðgóðrar menntunar og hæfniviðmið fyrir íslensku leggja áherslu á að nemendur geti lesið og skilið fjölbreytta texta.
Við fullorðna fólkið getum verið góðar fyrirmyndir.
- Setjumst við niður með börnunum og lesum?
- Sjá börnin okkur lesa?
- Eru bækur aðgengilegar á heimilinu?
- Förum við á bókamarkaði og leyfum börnum að velja sér bók?
Við vitum að í því samfélagi sem við lifum í þá getur skjárinn og síminn tekið mikinn tíma. En við getum líka stjórnað því hvað við gerum í símanum eða við skjáinn. Við getum verið með lestrarleiki í símanum eða smáforrit sem styðja við stafainnlögn. Við getum verið með bók á spjaldtölvunni sem er spennandi að lesa. Það er mikilvægt að við notum forrit sem styðja við nám og lestur frekar en að verja bara tíma í að horfa á YouTube eða TikTok.
Lestur er ekki bara nauðsynlegur fyrir nám heldur einnig fyrir þroska og þátttöku í samfélaginu. Með því að lesa reglulega getum við bætt orðaforða okkar, aukið skilning og þjálfað gagnrýna hugsun. Við skulum öll leggja okkur fram við að lesa meira og nýta öll tækifæri til þess.
Það er alltaf samstarfsverkefni heimilis og skóla að gera nemendur læsa og staða læsis hjá nemendum varðar allt samfélagið.
Hér geta foreldrar fundið efni sem styrkir þá við þetta mikilvæga verkefni:
https://laesisvefurinn.is/lestrarmenning/skolinn-og-heimilin/
Hér má finna áhugaverð efni fyrir foreldra sem hægt er að nýta með yngri börnum og nota þannig skjátímann betur:
https://mms.is/namsefni/stafaleikir-binu-vefur
https://mms.is/namsefni/stafaleikir-bua-vefur
GraphoGame lestrarleikur - https://apps.apple.com/is/app/graphogame-lestrarleikur/id6477287840
https://vefir.mms.is/stafaplanetur/
https://www1.mms.is/samhljodar/
Gangi ykkur og okkur öllum vel í því skemmtilega verkefni að gera öll börn vel læs.
Sigurbjörg Róbertsdóttir
skólastjóri Akurskóla