Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Brenna bæjarstjórnir af í dauðafæri?
Fimmtudagur 14. maí 2020 kl. 17:13

Brenna bæjarstjórnir af í dauðafæri?

Það er stutt síðan ég fékk kveðju frá meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að ég væri þingmaður í atkvæðasmölun þegar ég benti á gríðarlegt tækifæri sem við blasir í atvinnumálum svæðisins. Það er möguleikann á milljarðaframkvæmdum NATO í Helguvík. Framsetningin var undir belti og í stíl við vægi málefnisins, eins og atvinnumálin virðast horfa við bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Léttvægt.

Í dag, fimmtudaginn 14. maí, er forsíðufrétt í Morgunblaðinu um að ekki hafi náðst samkomulag um 12-18 milljarða króna framkvæmdir á Suðurnesjum á vegum NATO í ráðherrahópi ríkisstjórnarinnar. Það var vegna þessa samstöðuleysis sem þingmenn Suðurkjördæmis óskuðu eftir stuðningi sveitarstjórna á Suðurnesjum, sérstaklega Reykjanesbæjar, við þrýsting á ríkisstjórnina til að koma málinu á framkvæmdastig. Til áréttingar þá var kallað eftir bókun bæjarstjórna í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ sem vísa átti á ríkisstjórnina um að hér færu fram framkvæmdir á bilinu 12-18 milljarða og sköpuðu hundruð starfa á framkvæmdatímanum. Okkur þingmönnum vantaði sem sagt stuðning til að þrýsta á ríkisstjórnarflokkana um alvöru uppbyggingu og framtíðartækifæri á Suðurnesjum. Ekkert svar hefur komið frá bæjarstjórnunum en hafnarstjórn Reykjaneshafnar hefur þó sýnt dug og djörfung og bókað um málið. Stuðningur hafnarstjórnarinnar skiptir máli en dugar skammt þegar bæjarstjórnir draga lappirnar í 12-18 milljarða króna atvinnuuppbyggingu en hafa skal í huga að engum öðrum landhluta stendur til boða önnur eins framkvæmd í tugprósenta atvinnuleysi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í frétt Morgunblaðsins eru tíunduð verkefnin sem munu skapa hundruð framtíðarstarfa á uppbyggingartíma og tugi eða jafnvel hundruð framtíðarstarfa á Suðurnesjum. Þá eru möguleikar til uppbyggingar afleiddra starfa með stækkun Helguvíkurhafnar taldir til og þeirra tækifæra sem norðurslóðaverkefni alþjóðasamfélagsins munu skapa bæði í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli. Allt hangir þetta saman með því að hægt sé að byggja upp þá aðstöðu sem gerir Ísland að lykillandi í þjónustu og hafnarstarfsemi. Í stað þess að bæjarstjórn Reykjansbæjar fagnaði þessum möguleika, sem ætti að vera himnasending, og sendi ríkisstjórninni hvatningu til að hefja þessa uppbyggingu er þingmanninum sem flutti gleðitíðindin sendar kaldar kveðjur og lítið úr honum gert í umræðunni.

Það virðist sem einhverjir hafi sofið af sér þau tíðindi að nær öll gömlu kommúnistaríkin í austanverðri Evrópu hafa sagt skilið við eyðimerkurstefnu kommúnismans og gengið í NATO til að koma í veg fyrir að gamla eyðingastefnan kæmist á nýjan leik bakdyramegin inn í samfélögin. Þetta hefur alveg farið fram hjá þeim sem enn berjast fyrir því að Ísland gangi úr NATO en það er einmitt þessi fámenni sértrúarsöfnuður sem vill koma í veg fyrir tugmilljarða framkvæmdir mitt í öllu atvinnuleysinu á Suðurnesjum. Ég spyr því sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum: Er það virkilega svo að örfáir kaldastríðssérvitringar, sem eiga gamla gönguskó úr Keflavíkurgöngunum, eiga óáreittir að fá að koma í veg fyrir risa atvinnuuppbyggingu þegar atvinnuleysið er tæplega 30% á Suðurnesjum? Ætla bæjarstjórnir á svæðinu að láta það yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust?

Ég hef séð viðtöl við bæjarstjórann í Reykjanesbæ í sjónvarpinu. Oftast tekin í auðum sölum Flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli þar sem bæjarstjóri stendur með sorgarsvip og segir fátt um jákvæðar fréttir fyrir svæðið. Þar hefur verið spurt um atvinnuuppbyggingu en jafnan svarað að ekki sé áhugi fyrir þeim tækifærum sem hér hafa þó verið reynd og alls ekki nefnt að tugmilljarða verkefni NATO standi til boða fyrir svæðið.

Við vitum alveg hvaða áfall það var að missa Varnarliðið úr landi. Hér byggðist fjölmargt upp í kringum umsvif þess á Miðnesheiði í rúm 60 ár. Fólk þekkir störfin og góðu launin. Viljum við ekki skoða möguleikann á að fá að minnsta brot af þessum verkefnum til baka nú þegar fjármagnaður áhugi stendur til þess? Þessu til viðbótar er rétt að halda því til haga að meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur haldið þannig á málefnum Suðurnesjalínu 2, sem atvinnulífið hefur kallað eftir árum saman, að engum tárum tekur. Hér er kallað á meiri raforku og öryggi í raforkuflutningi en bæjarstjórnarmeirihlutinn hefur sett það mál í tafaleiðir og enn sér ekki fyrir endann á því hvenær við fáum aukið rafmagn og öryggi. Á sama tíma er kallað eftir auknum umsviftum og fjölbreytileika í atvinnulífi, það á bara að vera eitthvað annað sem notar ekki raforku!

Nú spyr ég íbúa á Suðurnesjum hvort þeir séu almennt á móti framkvæmdum fyrir 12-18 milljarða við Helguvíkurhöfn, svo hún geti orðið lykilhöfn í Norðurslóðaverkefnum alþjóðasamfélagsins og að uppbygging vegna björgunar og loftrýmiseftirlits verði á Keflavíkurflugvelli? Hver er hættan sem skapast af því að skapa þessi störf að mati bæjarstjórna Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar? Við heimamenn köllum á stuðning ykkar og liðsinni við að koma þessu máli í höfn og tryggja störfin.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður