Aðsent

200 ára fæðingarhátíð
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 24. október 2019 kl. 13:30

200 ára fæðingarhátíð

Nú um helgina munu milljónir manna um allan heim halda hátíðlegt 200 ára fæðingarafmæli Bábsins, annars af tveimur höfundum bahá’í-trúarinnar. Bahá’í-samfélögin á Íslandi taka þátt í þessum hátíðarhöldum og við hér í Reykjanesbæ viljum minnast dagsins með því að bjóða bæjarbúum til kvikmyndasýningar og kaffiveitinga mánudaginn 28. október. Afmælishátíðin verður haldin í Bahá’í-miðstöðinni Túngötu 11 og hefst kl. 20. Fjallar verður um Bábinn og kvikmyndin „Lýsir af degi“ sýnd um líf hans og boðskap. Í Reykjanesbæ er 30 manna bahá’í-samfélag en íslenska bahá’í-samfélagið telur um 400 manns. Bahá’í-samfélagið er rótgróið íslensku þjóðfélagi, tekur virkan þátt í samtrúarstarfi með öðrum trúfélögum og hefur átt gott samstarf við fjölmörg samtök og einstaklinga sem vinna að því að efla og bæta íslenskt samfélag.

Bahá'í-trúarbrögðin eru yngstu sjálfstæðu trúarbrögð heimsins. Þau litu dagsins ljós í Íran fyrir um einni og hálfri öld og eru nú þrátt fyrir ungan aldur landfræðilega útbreiddustu trúarbrögð heims, næst kristindómnum. Bábinn kom fram á sjónarsviðið árið 1844 og lýsti því yfir að hann væri kominn til að ryðja braut miklum mannkynsfræðara sem öll trúarbrögð heims hefðu boðað og opna myndi dyr að nýrri öld friðar og sameiningar alls mannkyns. Byltingarkenndur boðskapur hans breiddist eins og eldur í sinu um landið og olli gífurlegu umróti  og andstöðu víða í löndum múslíma. Bábinn kenndi jafnrétti kynjanna og einingu allrar fjölskyldu mannsins. Hann nam úr gildi allar helstu lagasetningar Kóransins, þar á meðal boðið um heilagt stríð. Um 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í miskunnarlausum ofsóknum yfirvalda og klerkaveldisins. Meðal fylgjenda Bábsins var íranska skáldkonan og eldhuginn Tahirih. Hún var fyrsta konan í íslam sem felldi blæjuna á almannafæri og var m.a. fyrir þær sakir tekin af lífi á almenningstorgi í Teheran árið 1848. Síðustu orðin sem hún sagði við böðla sína hafa endurómað víða um heim þar sem konur sæta kúgun og undirokun: „Þið tekið líflátið mig hvenær sem ykkur sýnist en þér getið aldrei komið í veg fyrir frelsun kvenna.“ Bábinn ferðaðist um Íran og kenndi boðskap sinn en af þeim sex árum sem hann kenndi boðskap sinn var hann fjögur ár í fangelsi og útlegð og þoldi pyntingar og harðræði í höndum íranskra klerka. Hann var tekinn af lífi árið 1850 í borginni Tabríz í norðurhluta Íran. Fylgjendur hans sæta enn grimmilegum ofsóknum í Íran og trúin er þar bönnuð með lögum. Árið 1863 lýsti Bahá'u'lláh, höfundur bahá’í-trúarinnar, því yfir að hann væri sá sem Bábinn hefði sagt fyrir um. Bahá’íar í Reykjanesbæ héldu upp á 200 ára fæðingarhátíð hans með kvikmyndasýningu og mannfagnaði í Hljómahöll í október 2017.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bahá’í-trúin á Ísland á sér langa sögu. Hennar var fyrst getið á prenti árið 1908 en þá skrifaði Þórhallur Bjarnarson, síðar biskup, grein um hana í Nýja kirkjublaðinu þar sem hann segir m.a.: „Fyrir fjörutíu árum reis upp dýrlegur kennimaður og guðsvottur í Persalandi (Íran) og hét hann Bahá’u’lláh. Eins og við mátti búast dó hann píslarvættisdauða og andaðist í tyrkneskri prísund 1892. Margir fylgjendur hans hafa látið lífið fyrir skoðanir sínar en þær breiðast því betur út. Kenningar hans eru að mörgu leyti svipaðar kenningum kristindómsins eins og mannúðlegast og göfugast er með þær farið.“ Þjóðskáldið Matthías Jochumson kallaði Bahá’u’lláh friðarboða og sagði að hann hefði „hrópað úr austri, vestur yfir löndin, hinn forna fagnaðarboðskap en fáir viljað heyra.“ 

Orðstír trúarbragða í nútímasamfélagi hefur skaðast mikið og er það skiljanlegt. Bahá’íar eru á þeirri skoðun að ef stuðlað er að hatri og og átökum í nafni trúarbragða væri miklu betra að vera án þeirra. Engu að síður má þekkja sönn trúarbrögð á ávöxtum þeirra – hvernig þau geta umbreytt, sameinað og stuðlað að friði og farsæld. Reynsla bahá’í-samfélaga um allan heim leiðir í ljós að trú og kenningar Baháʼuʼlláh vinna gegn fordómum og skapa virðingu og hlýhug í garð allra manna af öllum stéttum og trúarbrögðum. Með áherslum á jafnrétti kynjanna, upprætingu fordóma á grundvelli litarháttar, þjóðernis og trúar veita þær innsýn í leiðir til að vinna að samfélagslegum umbótum. Tilraunir til breytinga með pólitísku ráðabruggi, áróðri og rógi um einstaka hópa eða með deilum og átökum eru fordæmdar því þær kynda undir ágreiningsefnum meðan varanlegar lausnir ganga fólki úr greipum. Sú sýn sem Bahá'u'lláh boðaði miðar að því að hefja aftur til vegs og virðingar gildi eins og traust, heiðarleika, sannleiksást og aðrar manndyggðir sem virðast hafa fallið milli skips og bryggju á tímum efnishyggju og vantrúar. Áherslan er fyrst og fremst á andleg gildi. Bahá'íar vinna með hugtök sem stuðla að friði, sáttum og raunverulegum framförum eins og jafnrétti, einingu og samráði. Bahá‘í-samfélög um allan heim vinna að sama markmiði óháð búsetu og aðstæðum. Hér eins og annars staðar er þessi starfsemi opin öllum og allir boðnir velkomnir hvaða trú eða lífsskoðanir sem þeir kunna að aðhyllast.

Ljóst er að sú sameining jarðarbúa sem Bahá’u’lláh sagði fyrir um fyrir meira en 150 árum er orðin að veruleika á sviði tækni og samskipta. Fyrr en síðar mun þessi eining líka ná til hugarfarsins. Vitundin um að við erum eitt mannkyn og eigum aðeins þessa einu jörð fer vaxandi. Ekki er hægt að horfa framhjá þeim breytingum sem alþjóðleg umbrot hafa haft á hnattræna meðvitund. Það gríðarlega umrót sem heimurinn er vitni að á okkar tímum á þó eftir að hafa ennþá meiri áhrif. Tugir milljóna eru á flótta undan styrjöldum og ofsóknum í heimalöndum sínum og mitt í þeim sáru hremmingum sem slíku öngþveiti eru samfara má sjá hvernig menningarheimar og kynþættir renna saman sem borgarar í einu ættlandi sem er jörðin sjálf. Með orðum Bahá'u'lláh til mannanna barna: „Þið eruð öll lauf á einu tré og dropar í einu hafi.“

Eðvarð T. Jónsson