bygg 1170
bygg 1170

Viðskipti

Það hefur alltaf verið mikill bílaáhugi á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 23. nóvember 2019 kl. 08:05

Það hefur alltaf verið mikill bílaáhugi á Suðurnesjum

segir Sverrir Gunnarsson hjá Bílakjarnanum og Nýsprautun sem hefur tekið við söluumboði og þjónustu fyrir Heklu á Suðurnesjum

„Það er gaman og áskorun að taka ný skref á tímamótum eins og tuttugu ára afmæli fyrirtækisins. Ég hlakka til en eins og flestir fyrirtækjaeigendur vita þá snýst þetta um að þjónusta viðskiptavinina vel þannig að þeir vilji koma aftur. Það verður áframhaldandi markmið að bjóða alhliða bílaþjónustu en núna bætist við sala á nýjum og notuðum bílum,“ segir Sverrir Gunnarsson, eigandi Nýsprautunar við Njarðarbraut 15 á Fitjum í Njarðvík.

Sverrir gerði nýlega samstarfs- og þjónustusamning við bílaumboðið Heklu um sölu á bílum, varahlutum og þjónustu á vörumerkjum þeirra og keypti af því glæsileg húsakynni sem hýsa bílasölu með stórum sýningarsal og þjónustuverkstæði. Bílasalan verður undir nafninu Bílakjarninn, Nýsprautun mun sinna verkstæðisþjónustunni á vörumerkjum Heklu en einnig bjóða öðrum aðilum verkstæðisþjónustu. Nýsprautun mun halda áfram á „gamla“ staðnum með bílamálum og réttingar. Móttaka fyrir bæði fyrirtækin verður á nýja staðnum, í „gamla“ Hekluhúsinu sem er án efa glæsilegasta byggingin á bílasölusvæðinu á Fitjum.

Hvað fær menn til að stækka við sig og bæta við verkefnum en Sverrir hefur verið farsæll í rekstri Nýsprautunar í tuttugu ár?

Gera betur og stækka

„Ætli það sé ekki löngun til að stækka, dafna og gera betur. Það er þó nokkuð síðan að eigendur Heklu leituðu til mín en nú fannst mér rétti tíminn og ætla því að skella mér í smá útrás,“ segir Sverrir.

Hekla er eitt þekktasta bílaumboð landsins og er með fjögur stór merki í bílaheiminum: Audi, Volkswagen, Skoda og Mitsbishi. Eftir yfirtöku á umboðinu verða starfsmenn fyrirtækjanna tveggja fimmtán talsins. „Ég trúi því að Heklubílar eigi mikið inni á Suðurnesjum þó svo að þeir hafi verið nokkuð vinsælir á Suðurnesjum. Ég vona að heimamenn taki okkur vel. Markmiðið er að þjónusta þá vel. Við verðum með gríðarlega gott úrval af nýjum en einnig notuðum bílum og þá munum við veita góða verkstæðisþjónustu sem er viðurkennd af ábyrgðardeild Heklu,“ segir Sverrir sem er lærður bifvélavirki. Hann byrjaði snemma að vinna við bíla eftir að hafa lært iðnina hjá Íslenskum aðalverktökum. Þaðan lá leiðin í rekstur bílaverkstæðis og málunar árið 1999 í Grófinni 7 í Keflavík undir merkjum Nýsprautunar með Magnúsi Jónssyni en þeir höfðu kynnst í lögreglunni 1996 þar sem þeir störfuðu saman um tíma. Sverrir keypti félaga sinn út tveimur árum síðar og hefur rekið fyrirtækið síðan að Njarðarbraut 15 frá árinu 2005.

Aðspurður um fyrirtækjarekstur segir Sverrir það vera krefjandi og lærdómsríkt en umfram allt skemmtilegt. Hann segist hafa verið heppinn með starfsfólk alla tíð en meðal starfsmanna er Sigurður J. Halldórsson, tengdafaðir hans, sem hefur haldið utan um bókhald og fjármál síðasta áratuginn.

Sverrir með starfsmönnum sínum í Nýsprautun.

Trú á svæðinu

En hvað segir Sverrir um fyrirtækjarekstur og framtíð Suðurnesja?

„Ég hef mikla trú á svæðinu. Það er góður andi hérna. Þó finnst mér stundum menn tala svæðið óþarflega niður. Við sem erum hér verðum að tala svæðið upp og vera jákvæð. Annars getum við ekki ætlast til þess að aðrir geri það,“ segir hann.

En hafa Suðurnesin ekki alltaf verið svolítið bílasvæði?

„Jú, það hefur alltaf verið mikill bílaáhugi á Suðurnesjum. Það var oft talað um Keflavík sem bílabæ og ég held að það hafi ekki mikið breyst. Það er mikið af flottum bílum á svæðinu. Svo má ekki gleyma því að hvergi eru fleiri bílaleigur en þær hafa haft mikil jákvæð áhrif á viðskiptalífið á svæðinu undanfarin ár,“ segir Sverrir í Bílakjarnanum og Nýsprautun.

Elmar Þór Hauksson, „söngvari“ og bifvélavirki stýrir þjónustuverkstæðinu í Hekluhúsinu.

Sverrir með Erlingi Hannessyni sem er aðal bílasali Bílakjarnans.

Fjölmargir samfögnuðu með Sverri þegar formleg opnun Bílakjarnans fór fram. Hér er hann með Pétri Ö. Sverrissyni og Ara Eldjárn grínista. Fleiri myndir hér að neðan úr opnunarteitinu.

Bílakjarninn opnunarhátíð