Viðskipti

Tælenski maturinn í gömlu Lindinni í Keflavík er vinsæll
Magnús Heimisson fyrir framan Thai Keflavík við Hafnargötu í Keflavík.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 21. nóvember 2020 kl. 07:51

Tælenski maturinn í gömlu Lindinni í Keflavík er vinsæll

Magnús Heimisson, veitingamaður í Thai Keflavík, segir að fyrstu árin hafi verið strembin. Hefur bætt við sig sushi-framleiðslu sem fer fram í Sandgerði undir nafninu Reykjavík Asian.

„Þetta er búið að vera erfitt og tekjurnar hafa dregist saman um 40–50%. Það segir sig sjálft að það er ekki auðvelt að láta reksturinn ganga og því oft erfitt að standa þau skil sem maður á að gera,“ segir Magnús Heimisson, veitingamaður í Thai Keflavík.

Magnús stendur vaktina á veitingastaðnum við Hafnargötu í Keflavík þar sem margir eldri Keflvíkingar muna eftir að hafa náð sér í pulsu og kók á Lindinni. Hann segir að reksturinn hafi gengið ágætlega í sumar og í raun komið á óvart. Eitthvað var um ferðamenn en þeir voru duglegir að sækja staðinn á síðustu árum en hafa eðlilega ekki sést mikið síðustu vikur og mánuði og í upphafi Covid-19.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sumarið gott

„Sumarið var svona 70% af sumrinu í fyrra sem er í góðu lagi. Heimamenn hafa komið enn sterkari inn og vonandi halda þeir áfram að koma í framtíðinni. Þeir hafa eiginlega bjargað rekstrinum á þessu ári. Síðustu vikur þegar við höfum einungis mátt hafa tíu manns í sal hefur gert það að verkum að viðskiptavinir hafa flestir tekið matinn með sér heim eða í vinnuna. Þegar maður má bara taka við tíu manns í sal þá höfum við þurft að vísa fólki frá staðnum en það hefur sætt sig við að taka matinn heim. Asískur matur er reyndar mjög þægilegur hvað það varðar. Svolítið eins og pítsa sem er auðvelt að taka með heim. Undanfarnar vikur hafa margir dagar verið mjög góðir hjá okkur,“ segir Magnús sem ekki alls fyrir löngu ákvað að gera meira úr framleiðslu á sushi. Hann opnaði verksmiðju í Sandgerði og þar starfa tíu manns á tvískiptum vöktum alla daga.

Reykjavíkur-sushi í Sandgerði

„Við sáum tækifæri í því að bæta við okkur. Við rákum reyndar líka fiskbúð um tíma en misstum húsnæðið á besta stað hér á Hafnargötunni og hættum því rekstri hennar. Sushi-ið og ferskir asískir tilbúnir réttir hafa komið sterkt inn hjá okkur sem viðbót í fyrirtækinu. Við byrjuðum á sushi og bættum svo við tilbúnum elduðum réttum og svo gerum við einnig skemmtilega veislubakka sem hafa verið vinsælir. Við seljum í flestum verslunum Nettó, Iceland og víðar og bjóðum einnig heimsendingar. Þetta hefur gengið vonum framar. Við leggjum áherslu á að vera með faglega þjónustu og ferskt hráefni. Við horfðum út fyrir Suðurnesin og vorum heppin að geta notað nafnið Reykjavík í það hjá okkur. Það er sterkt,“ en sushi-framleiðslan er seld undir nafninu Reykjavík Asian.

Fáir ferðamenn fyrstu árin

Þegar Magnús er beðinn um að rifja upp hvernig þetta hafi gengið í gegnum tíðina segir hann að það hafi orðið mikil aukning á síðustu árum en það hafi oft verið mjög rólegt fyrstu árin. Thai Keflavík opnaði árið 2006 og þá voru mun færri ferðamenn og nánast engir yfir veturinn. „Þetta var oft rólegt. Ég átti það til að horfa á sjónvarpsþætti hér á staðnum í hádeginu og fótboltaleiki á kvöldin. Ef það komu útlendingar inn á staðinn yfir veturinn varð maður bara hissa. Svo jókst þetta jafnt og þétt með aukningu í komu ferðamanna til landsins. Maður þarf bara að halda þetta út á næstu mánuðum og vona að þessum veirutíma farið að ljúka. Ég er bara bjartsýnn og held að það fari allt á fleygiferð þegar það gerist.“

Magnús segist vera í vinnunni alla daga en hann er nýfluttur í íbúðarhúsið við hlið Thai Keflavík veitingastaðarins. „Það er stutt að fara í vinnuna,“ segir hann glaður í bragði þegar við kveðjum hann.

Sushi undir nafninu Reykjavik Asian er framleitt alla daga í verksmiðju í Sandgerði.