Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Oft skrýtið að keyra inn í bæinn á morgnana
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 27. ágúst 2024 kl. 18:51

Oft skrýtið að keyra inn í bæinn á morgnana

Sjómannastofan í Grindavík búin að opna á ný

„Við lokuðum eftir verslunarmannahelgi, það var mun minna að gera hjá verktökum sem margir vildu eflaust halda að sér höndum vegna yfirvofandi eldgoss. Nú er allt komið á fullt og ég vona að það versta sé yfirstaðið og við getum farið að hefja uppbyggingu Grindavíkur,“ segir Vilhjálmur Lárusson, veitingamaður og eigandinn á Sjómannastofunni Vör í Grindavík.

Vikan fór vel af stað hjá Villa en fyrir utan að bjóða upp á „mömmumat“ í hádeginu á Vörinni, eldar hann líka ofan í starfsfólk Jarðboranna sem vinna úti á Reykjanesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er búið að vera fínt í þessari viku eftir að ég opnaði, 150 manns í gær og 180 í dag. Þegar mest var fyrr í sumar fór talan oft vel yfir 200 svo ég hef ekki þurft að kvarta. Ég lokaði eftir verslunarmannahelgi því það var lítil sem engin starfsemi í bænum þá en sjálfur var ég samt alla daga að elda ofan í starfsfólk Jarðboranna sem eru í verkefni úti á Reykjanesi. Ég þarf að elda hádegis- og kvöldmat og svo þurfa næturstarfsmennirnir að hafa eitthvað til að narta í, þetta eru u.þ.b. 50 matarskammtar á sólarhring.

Það er búið að vera fínt að gera hjá mér í sumar en það er oft skrýtið að keyra inn í bæinn á morgnana, manni finnst ekkert vera í gangi en svo nær biðröðin stundum út á götu í hádeginu. Það getur verið erfitt að skipuleggja sig en einhvern veginn hefur þetta gengið upp.

Ég er bjartsýnn fyrir hönd Grindavíkur, mig grunar að við eigum eftir að fá eitt eldgos í viðbót en þetta er vonandi að færa sig fjær Grindavík eins og það síðasta. Ef þetta er það sem koma skal þá er ekkert sem mælir á móti því að hefja uppbyggingu bæjarins sem fyrst, við getum vel lært að lifa með þessu. Varnargarðarnir breyta öllu, mér líður mjög öruggum inni í Grindavík og hef fulla trú á að bærinn verði farinn að iða af lífi áður en langt um líður,“ sagði Vilhjálmur að lokum.