Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Viðskipti

Kom með fullar töskur af gleraugum fyrir Suðurnesjamenn
Kjartan Kristjánsson, eigandi Optical Studio.
Fimmtudagur 9. júní 2022 kl. 13:10

Kom með fullar töskur af gleraugum fyrir Suðurnesjamenn

„Mér varð fljótt ljóst að það væri rekstrargrundvöllur fyrir gleraugnaverslun á Suðurnesjum þegar ég kom í nokkur ár fyrir fjörutíu árum síðan með Úlfari Þórðarsyni, augnlækni, vikulega á heilsugæsluna í Keflavík með fullar töskur af gleraugum. Þau seldi ég fólki sem hafði fengið gleraugna-„recept,“ segir Kjartan Kristjánsson, eigandi Gleraugnaverslunar Keflavíkur (GVK), nú Optical Studio en fyrirtækið fagnar 40 ára afmæli.

Kjartan stofnaði síðan Gleraugnaverslun Keflavíkur með félaga sínum Pétri Christiansen 29. maí 1982 í litlu húsnæði við Hafnargötu.

„Viðtökur voru strax góðar og ekki var það verra að íbúar á varnarsvæðinu nýttu sér okkar þjónustu. Það leiddi til þess að aðeins sex mánuðum eftir opnun GVK var samið við Varnarliðið um rekstur gleraugnaverslunar á varnarsvæðinu, nánar tiltekið við verslun Varnarliðsins, Navy ExChange. Að sjálfsögðu voru öll viðskipti með gleraugu til varnarliðsins tollfrjáls (duty free). Versluninni á varnarsvæðinu var gefið nafnið Optical Studio. Það var þá sem ég fór að leiða hugann að því að komast inn í flugstöðina með gleraugnaverslun, ekki bara sólgleraugu, heldur að setja upp alvöru gleraugnaverslun og geta boðið Íslendingum tollfrí gleraugu líkt og Varnarliðinu á Keflvíkurflugvelli. Það liðu þó ein sautján ár áður en sá draumur varð að veruleika.“

Gleraugu í gömlu löggustöðinni

Gleraugnaverslun Keflavíkur flutti á Hafnargötu 17, í gömlu lögreglustöðina, eftir þrjú ár frá opnun.

„Árið 1992 byggðum við húsið við Hafnargötu 45 í samvinnu við Húsagerðina. Þar er starfsemin í dag með augnlæknastofu á 2. hæð. Þetta er stakstætt hús teiknað af Valdimar Harðarsyni, arkitekt, með góðu aðgengi og ágætum bílastæðum. Sama ár var farið í útrás inn á Reykjavíkursvæðið, Gleraugnaverslunin í Mjódd var stofnuð og nokkru síðar reksturinn á gleraugnaverslun á Selfossi tekinn yfir. Optical Studio hóf rekstur í Leifsstöð í janúar 1998 og í Smáralind um haustið 2001.“

Lánsamur með starfsfólk

Leiðir Kjartans og Péturs skilja 2004 og hann varð einn eigandi að fjórum verslunum Optical Studio.

„Ég hef verið lánsamur með starfsfólk í þessi 40 ár en nú eru vatnaskil í mínum rekstri og við keflinu tekur yngra og vel menntað fólk. Dóttir mín, Hulda Guðný, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Burkni Birgisson, sjóntækjafræðingur, er í forsvari fyrir Optical Studio í Keflavík. Hann er einnig með annann fótinn í versluninni í Leifsstöð. Burkni hefur starfað hjá mér í 24 ár og er af góðu kunnur af viðskiptavinum okkar fyrir fágaða vinnu við sjónmælingar og smíði á gleraugum Suðurnesjamanna. Í versluninni í Leifsstöð var Burkni mér við hlið er Optical Studio hóf rekstur og framleiðslu á gleraugum á fríhafnarsvæðinu í Leifsstöð.

Ein sinnar tegundar

Verslunin í Leifsstöð er ein sinnar tegundar í alþjóðlegri flugstöð, þar eru öll algengestu styrkleika gleraugu framleidd á aðeins fimmtán mínútum.

„Ég er ekki hættur störfum, í raun hefur vinnan hjá mér aukist nú þegar Covid er að baki. Ný verslun Optical Studio í miðbænum í Reykjavík rétt við nýtt heimili mitt er sá vinnustaður sem ég sinni mest í dag. Með haustinu opnar Optical Studio verslun í Kringlunni. Svo það er nóg af verkefnum framundan.“

En hvað segir Kjartan um breytingar í faginu á fjörutíu árum?

„Mesta breytingin átti sér stað 2003 þegar sjónmælingar gerðar af sjóntækjafræðingum voru leyfðar í gleraugnaverslunum, fram að þeim tíma voru aðeins augnlæknar sem skrifuðu út recept fyrir gleraugum,“ segir Kjartan sem alla tíð hefur verið þekktur fyrir að vera með þekkt merki í gleraugum.

„Viðskiptasambönd og umboð Optical Studio í dag eru við öll þekkustu gleraugnamerkin á markaðinum, Gucci, Prada, Dior, Cartier og Ray Ban svo nokkur séu nefnd. Umgjarðir sem eru aðeins 2.8 grömm frá Lindberg sem Optical Studio kynnti markaðinum fyrir 30 árum síðan eru og hafa verið skrautfjöður fyrirtækisins. Í tilefni 40 ára afmælisins ætlum við að veita 40% afslátt af öllum vörum verslunarinnar miðvikudag og fimmtudag 8. og 9. júní,“ sagði Kjartan.

Burkni Birgisson, sjóntækjafræðingur er í forsvari fyrir Optical Studio í Keflavík.