Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

Jafnrétti og umhverfið í brennidepli hjá Samkaupum
Lykilstjórnendur Samkaupa hf., f.v. Heiður Björk, Stefán Ragnar, Gunnur Líf, Gunnar Egill og Ómar Valdimarsson.
Föstudagur 25. mars 2022 kl. 08:08

Jafnrétti og umhverfið í brennidepli hjá Samkaupum

Stjórnendur hjá Samkaupum eru 52% konur og 48% karlar. Samkaupsappið með yfir 40.000 notendur og þar með orðið eitt stærsta vildarkerfi á Íslandi.

Samkaup hafa gefið út samfélagsskýrslu fyrir árið 2021. Í skýrslunni kemur m.a. fram að Samkaup hafa nú náð jöfnu kynjahlutfalli á meðal stjórnenda, þá var sérstök velferðarþjónusta fyrir starfsfólk tekin í gagnið og fram kemur að Samkaup losuðu í fyrra 27% minna af kolefni en árið áður, þrátt fyrir að verslunum hafi fjölgað. Þennan árangur má þakka umræðu og áherslu síðustu ára á aukið vægi samfélagslegrar ábyrgðar á öllum stigum reksturs fyrirtækja, stefnumótunar og í daglegum ákvörðunum. 

Samkaup hafa lagt mikla áherslu á að vinna kerfisbundið að samfélagslegri ábyrgð. Til marks um það hlutu Samkaup jafnvægisvog FKA og Hvatningarverðlaun jafnréttismála, bæði á sviði fjölmenningar og atvinnumála starfsmanna með skerta starfsgetu. Árangurinn á þessum sviðum má ekki síst þakka farsælu samstarfi við Samtökin ‘78, Þroskahjálp og Mirru rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk. 

Public deli
Public deli

„Jafnréttti er áfram í miklum brennidepli hjá okkur. Samkaup hlaut jafnlaunavottun árið 2018 og fór í gegnum fjórðu úttektina á jafnlaunakerfinu í nóvember í fyrra þar sem niðurstaðan er einungis 0,4% launamunur. Sé heildarfjöldi stjórnenda hjá Samkaupum skoðaður út frá kynjahlutföllum, er jafnvægi milli kynja afar gott eða 48% karlar og 52% konur. Þá höfum við lagt áherslu á að fjölga konum í efsta stjórnendalagi félagsins sérstaklega og í dag er helmingur framkvæmdastjóra félagsins kvenkyns. Þetta skiptir gríðarlegu máli og við viljum hvetja önnur fyrirtæki til að gefa þessum málaflokki aukna athygli. Það ber árangur,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa. 

Sálfræði- og lögfræðiráðgjöf

Í fyrra var sérstakri velferðarþjónustu Samkaupa hleypt af stokkunum sem miðar að því að stuðla að auknum lífsgæðum starfsfólks. Þetta er nýjung en í þjónustunni felast úrræði til að takast á við óvænt áföll og aðra erfiðleika, starfsfólkinu að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda. Heilsuvernd hefur umsjón með velferðarþjónustunni, sem nær m.a. til hjónabands- og fjölskylduráðgjafar, streitu- og tilfinningastjórnunar, sálfræðiráðgjafar, lögfræðiráðgjafar og svefnmeðferða. 

„Meginmarkmið Samkaupa er að vera eftirsóknarverður vinnustaður, þar sem áhersla er lögð á jákvæða og heilbrigða menningu, jafnrétti og sterka liðsheild. Að auki höfum við lagt okkur fram um að hvetja starfsfólk til aukinnar menntunar og við viljum virkja fólk til að bæta við sig þekkingu. Við höfum mótað öfluga menntastefnu sem mætir starfsfólki hvar sem það er, hvort sem er í formi símenntunar (dæmi um slíkt verkefni er Fræðsluskot kaupmannsins), fagnáms í verslun og þjónustu í samvinnu við Verslunarskóla Íslands eða diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Auk þess settum við á fót árið 2021 sérstaka leiðtogaþjálfun fyrir verslunarstjóra Samkaupa með yfirheitinu Forysta til framtíðar en það er 12 ECT eininga nám í samstarfi við Háskólann á Bifröst og er einstakt í atvinnulífinu,“ segir Gunnur Líf.

Losuðu 27% minna af kolefni þrátt fyrir fjölgun verslana

Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Samkaupa segir að stærsti vendipunkturinn í loftslagsmálum hjá Samkaupum hafi verið þegar fyrirtækið skrifaði undir yfirlýsingu sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015. Samkaup hafi verið leiðandi í að minnka losun á dagvörumarkaði síðan. Í fyrra losaði Samkaup 27% minna af kolefni en ári áður, þrátt fyrir að verslunum hafi fjölgað og þá dróst eldsneytisnotkun vegna ökutækja fyrirtækisins saman um 8,36%. 

„Við gerðum margar smærri breytingar í fyrra sem þó hafa allar mikil áhrif, svo sem að taka upp rafrænar hillumerkingar í stað límmiða, hefja notkun á rafrænum kvittunum í Samkaupa- appinu, og setja upp fyrstu hraðhleðslustöðvarnar við verslanir. Þá hefur matarsóunarátakið „Minni sóun - allt nýtt“ verið í gangi í nokkur ár en árið 2021 var algjört metár þegar afslættir í gegnum átakið námu tæplega 320 milljónum króna. Við opnuðum líka aðra græna Nettó verslun, þar sem hugmyndafræði grænu skrefanna er höfð til hliðsjónar. Við ætlum að halda áfram á þessari braut. Loks innleiddum við umhverfisstjórnunarhugbúnað frá Klöppum sem gerir okkur kleift að mæla og fylgjast með kolefnisspori fyrirtækisins í rauntíma auk ýmissa annarra aðgerða með það fyrir augum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði beinum og afleiddum,“ segir Heiður Björk.

Auka sölu á íslenskum afurðum

„Við gerðum samstarfssamning við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga árið 2020,“ segir Stefán Ragnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri innkaupasviðs Samkaupa. Hann segir markmiðið að bæta aðstöðu og auka aðgengi að opnum skógræktarsvæðum þannig að almenningur geti nýtt sér skóga til útivistar og heilsubótar. „Við höfum líka gert mikið í innkaupadeildinni, svo sem með því að bjóða neytendum upp á umhverfisvæna kosti og sjálfbæra framleiðendur eins og Änglamark en það er dæmi um vörumerki þar sem gæðahráefni og lífræn ræktun mætast. Þá skiptir líka máli að við höfum á undanförnum árum náð að auka sölu á íslenskum afurðum. Með því náum við að lágmarka innflutning á vörutegundum sem einnig eru framleiddar hérlendis, enda hefur það sýnt sig að neytendur kjósa helst íslenskt, sé slíkur kostur í boði,“ segir Stefán.

Nýsköpun og áframhaldandi stafræn þróun

Samkaupa-appinu var hrint úr vör um mitt ár 2021 og var því vel tekið. Í árslok voru notendur orðnir um 40.000 og 20% af sölu verslana fór í gegnum appið. Þar með er appið orðið að einu stærsta vildarkerfi landsins að sögn Gunnars Egils Sigurðssonar, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa. 

 „Við höfum verið dugleg að tileinka okkur nýja tækni og nýta fleiri leiðir við að mæta viðskiptavinum okkar. Netverslunin, sem fór í loftið árið 2017, hefur vaxið hratt og í fyrra var hvert metið slegið á fætur öðru í nýtingu hennar hjá okkar viðskiptavinum. Við fengum vissulega heimsfaraldur með tilheyrandi samkomutakmörkunum en við teljum að neytendahegðunin hafi breyst til langframa og við hlökkum til að stíga næstu skref á þessari vegferð. Nýsköpun er eina leiðin til að lifa af og það má geta þess að við höfum stutt við viðskiptahraðalinn „Til sjávar og sveita - frá hugmynd í hillu“, sem er brú á milli nýsköpunar og viðskiptavina. Þar hefur skapast góður vettvangur til vöruþróunar, m.a. á sviði hátækni í matvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði, með betri nýtingu hráefna þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru höfð að leiðarljósi. Ég get lofað því að neytendur eiga von á ýmsu góðu á þessu sviði á árinu framundan,“ segir Gunnar Egill. 

Stjórn Samkaupa er þannig skipuð: Sigurbjörn Gunnarsson (KSK) form., Skúli Skúlason, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Margrét Guðnadóttir frá KB, Halldór Jóhannsson frá (KEA) og Anna Birgitta Geirfinnsdóttir.