Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Álversbyggingu breytt í grænan iðngarð
Miðvikudagur 1. mars 2023 kl. 09:56

Álversbyggingu breytt í grænan iðngarð

Nýverið var gengið frá kaupum Reykjanesklasans ehf.  á byggingum Norðuráls í Helguvík.  Húsnæðið sem er um 25 þúsund fermetrar að grunnfleti hefur staðið autt um árabil. Ætlunin er að húsnæðið verði um 35 þúsund fermetrar þegar umbreytingu þess er lokið. Reykjanesklasinn fyrirhugar að koma þar upp „Græna iðngarðinum“ sem hýst getur innlend og erlend fyrirtæki sem þurfa rými fyrir sprotastarf, rannsóknar- og tilraunastarfsemi, þróun, framleiðslu og samsetningu á vörum eða aðstöðu fyrir fiskeldi og ræktun, svo eitthvað sé nefnt. Stofnendur Reykjanesklasans eru Keflvíkingurinn Kjartan Eiríksson og Þór Sigfússon. 

 „Með grænum iðngarði skapast tækifæri fyrir fjölda fyrirtækja að nýta sér einstaka aðstöðu og auðlindir Reykjaness. Staðsetning garðsins við alþjóðaflugvöll og höfn skapar líka mikil tækifæri. Við vonum að þessi nýja starfsemi geti einnig eflt enn frekar allt samfélagið í kringum Græna iðngarðinn, aukið fjölbreytni starfa og tækifæra fyrir fólk með ólíka menntun, bakgrunn og þekkingu,“ segir Kjartan Eiríksson en hann var framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í mörg ár en félagið var stofnað fljótlega eftir brottför Varnarliðsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í fréttatilkynningu frá Græna iðngarðinum kemur fram að húsnæði hans bjóði upp á fjölbreytta möguleika og aðstöðu sem hægt er að skipta upp í misstórar einingar sem henta hverju verkefni. Enska heiti hans  er Iceland Eco-Business Park. 

Grænir iðngarðar eru klasar fyrirtækja sem staðsett eru á sameiginlegu svæði. Markmið garðanna er að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í hringrásarhagkerfinu. Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma á fót starfsemi í græna iðngarðinum leitast við að haga starfsemi sinni á þann hátt að minnka úrgang eins og kostur er. Hvers konar úrgangur frá starfsemi fyrirtækjanna er endurnýttur eða nýttur sem auðlind fyrir önnur fyrirtæki í garðinum. Í samstarfi fyrirtækjanna er einnig lagt kapp á að búa starfsfólki aðlaðandi og spennandi umhverfi.  

„Klasar og iðngarðar eiga margt sameiginlegt en bæði þessi samfélög hafa orðið til í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun, samlegðaráhrif og nýsköpun. Græni iðngarðurinn byggir á svipaðri hugmyndafræði og Íslenski sjávarklasinn hefur beitt á undanförnum áratugum við að leiða saman fólk og fyrirtæki tengda nýsköpun. Innan Græna iðngarðsins verður starfræktur hópur sem samanstendur af fulltrúum fyrirtækja í garðinum. Markmið hópsins er að  skapa aukin verðmæti með samstarfi fyrirtækjanna tengt nýsköpun og hringrásarmálum. Græni iðngarðurinn og Auðlindagarðurinn á Reykjanesi hyggjast efla samstarf sín í milli. Auðlindagarðurinn á Reykjanesi hefur þótt í mörgu fyrirmynd um uppbyggingu umhverfisvæns atvinnusvæðis.  Auðlindagarðurinn nýtir nálægð við jarðvarmaver HS Orku.  

Með samstarfi Græna iðngarðsins og Auðlindagarðsins skapast tækifæri til að búa fyrirtækjum í græna iðngarðinum og á öllu svæði Auðlindagarðsins enn sterkari samkeppnisstöðu. Þá á Græni iðngarðurinn einnig í nánu samstarfi við Kadeco sem er Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. 

Með samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, Reykjaneshöfn og aðra hagaðila er stefnt að þvi að starfsemi Græna iðngarðsins stuðli að aukinni verðmæta- og atvinnusköpun. Markmiðið er að gera allt svæðið áhugavert fyrir fyrirtæki og frumkvöðla sem vilja að byggja upp umhverfisvæna starfsemi, á svæði þar sem finna má öflug samfélög, hreinar auðlindir og góðar tengingar við útlönd,“ segir í tilkynningunni. 

 „Hús Sjávarklasans sem er um 3000 fermetrar að stærð, hefur í röskan áratug boðið frumkvöðlum skrifstofuaðstöðu. Með þessari rösklega tíföldun á aðstöðu opnast tækifæri fyrir frumkvöðla til að fara í mun stærra húsnæði fyrir margháttaða starfsemi og hvers konar framleiðslu,“ segir Þór Sigfússon, annar stofnendanna.