Reykjanes Optikk afmælistilboð
Reykjanes Optikk afmælistilboð

Pistlar

Yfir hundrað tonn á handfæri
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 30. júlí 2021 kl. 11:02

Yfir hundrað tonn á handfæri

Aflafréttir á Suðurnesjum

Júlímánuður svo til að verða búinn, netabátarnir er margir komnir af stað og hefur veiðin hjá þeim verið þokkaleg. Þeir byrjuðu út af Sandgerði en hafa fært sig inn í Faxaflóann.

Maron GK er með 68 tonn í tuttugu róðrum, Halldór Afli GK 54 tonn í 22, Langanes GK 35 tonn í sautján og Grímsnes GK 34 tonn í 21 en bæði Langanes GK og Grímsnes GK munu fara að eltast við ufsann núna í ágúst. Sunna Líf GK með nítján tonn í tíu róðrum og Guðrún GK 21 tonn í fjórtán.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Enginn línubátur er á veiðum frá Suðurnesjum en í Grindavík komu Vísisbátarnir með afla, þeir eru síðan komnir í sumarfrí og eru þar með allir stóru línubátarnir frá Suðurnesjum komnir í frí. 

Reyndar var þetta nokkuð merkilegt því að Páll Jónsson GK kom til Grindavíkur með 80 tonna afla en með þeirri löndun lauk skipstjórnarferli Gísla V. Jónssonar sem hafði verið skipstjóri í 48 ár og hjá Vísi í Grindavík í hátt í 25 ár. 

Annars er ég staddur núna á Bakkafirði á Norðausturlandi og við þennan litla bæ er mjög svo mikil tenging við Suðurnesin. Til að mynda á árunum frá 1980 til 1990 voru margir bátar frá Suðurnesjum sem komu austur á Bakkafjörð til þess að róa á handfærum, t.d Ragnar GK sem var um fimmtán tonna stálbátur og Fram KE sem var ellefu tonna bátalónsbátur.

Enn þann dag er tenging við Suðurnesin því núna eru þrír bátar að landa hérna sem allir voru í Sandgerði í vetur og munu allir þessir bátar koma aftur til Sandgerðis í haust. Þetta eru Kvika GK sem er á handfærum og hefur landað á Bakkafirði 6,3 tonnum í tveimur róðrum. Nýi Víkingur NS sem er á strandveiðum og hefur landað fimm tonnum í átta róðrum og Gjafar GK sem hefur landað 3,4 tonnum í þremur róðrum.

Einn af þeim bátum sem á heimahöfn á Bakkafirði er sómabáturinn Tóti NS. Þessi bátur byrjaði sögu sína frá Keflavík og hét þá Þrándur KE. Magnús Jónsson átti bátinn og réri hann á handfærum allt árið. Yfirleitt byrjaði hann róðra frá Sandgerði en færði sig síðan vestur á Suðureyri, var þar yfir sumarið og kom síðan aftur til Sandgerðis. Þrándur KE var, á árunum 1993 til 1995, með aflahæstu handfærabátum á landinu og náði því að veiða yfir hundrað tonn á ári, einungis á handfærin. 

Tveir af stærstu bátunum sem hafa róið frá Bakkafirði áttu báðir tengingu við Suðurnesin, t.d eikarbátur sem hét Ágúst Guðmundsson GK frá Vogum. Hann var seldur til Bakkafjarðar og fékk þar nafnið Ver NS. Síðan var þar báturinn Sjöfn II NS sem var gerður út frá Bakkafirði í um fimmtán ár, hann endaði sína útgerðarsögu sína í Grindavík og hét þá þar Gullfaxi GK og sögu þess báts lauk árið 2003.