Pistlar

Vel heppnað góðgerðarfest
Föstudagur 5. nóvember 2021 kl. 07:21

Vel heppnað góðgerðarfest

Var einn af rétt rúmlega 400 stálheppnum einstaklingum sem sóttu Oktoberfest Blue heim um síðustu helgi. Að þessu sinni var hátíðin góðgerðarfest en í aðdraganda kvöldsins og á kvöldinu sjálfu þá söfnuðust yfir tíu milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum sem munu renna óskiptar í góð og þörf málefni í nærsamfélagi okkar hérna fyrir sunnan. 

Frábært framtak og í raun alveg magnað hversu vel söfnunin gekk og kemur svo sannarlega að góðum notum. Hátíðin sjálf var einstaklega vel heppnuð og skipulagið til mikillar fyrirmyndar, hver einn og einasti gestur tók t.d. Covid-hraðpóf fyrir hátíðina og öryggið sett á oddinn. Staðreyndin er nefnilega sú að fólki þyrstir í að fara á viðburði á nýjan leik, hitta annað fólk og skemmta sér ærlega saman. Eftir langa og mjög erfiða mánuði, þar sem fólk hefur mikið verið einangrað og lokað sig af, þá skiptir það gríðarlegu máli að koma hlutunum í gang því flest njótum við þess að hittast og skemmta okkur saman. Viðburðir eru einnig mikilvægir t.d. íþróttafélögunum okkar og hinun ýmsu góðgerðarfélögum og það að hlutirnir séu byrjaðir að rúlla aftur er mikið gleðiefni því ekki er hægt að taka þessu sem sjálfsögðum hlut lengur. 

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Hef sjálfur farið á fjölda viðburða síðustu vikur og mánuði, við þurfum flest á þessu að halda og gleðin hefur verið allsráðandi. Það er nefnilega vel hægt að halda stærri viðburði ef góðu skipulagi er fylgt, fólk sýnir ábyrgð og Blue fjölskyldan sýndi það svo sannarlega með þessari frábæru hátíð þar sem allt var gert upp á tíu. Allir þeir sem komu að þessu á einn eða annan hátt eiga gríðarlega mikið hrós skilið, gleðin var við völd og ekki skemmdi sú staðreynd fyrir að miklir fjármunir söfnuðust í verðug góðgerðarmál á svæðinu. Persónulega finnst mér þessi hátíð líka gefa okkur öllum byr í seglin, því það er vel hægt að halda stóra viðburði þrátt fyrir „ástandið“ með góðri skipulagningu. Þorrablótsnefndir íþróttafélaganna fyrir sunnan ættu að taka Blue framkvæmdina til fyrirmyndar og halda ótrauð sínu striki.  Ég vil endilega komast á Þorrablót 2022. 

Hitti gamlan kunningja minn úr Reykjavík á hátíðinni og sá var í skýjunum!! Hafði ekki komið hingað suður í gleðskap síðan hann fór á Stuðmannaball í Stapa árið 1987. Þá voru aðrir tímar og upplifun hans var ekki góð en hann var rændur á meðan það var verið að ræna hann! Á Oktoberfest fékk hann bara kossa á kinn og fór heim alsæll.

Örvar Þór Kristjánsson.