Heklan
Heklan

Mannlíf

Keflvíkingurinn á Austurlandi: Nýtt starf, nýjar áskoranir
Föstudagur 26. desember 2025 kl. 07:54

Keflvíkingurinn á Austurlandi: Nýtt starf, nýjar áskoranir

Árið 2024 varð Ingvari Georgs eftirminnilegt og á köflum óvenjulegt — en um leið fullt af spennandi breytingum. Eftir tæp 27 ár hjá Brunavörnum Suðurnesja tók hann stórt skref og réði sig sem slökkviliðsstjóra hjá slökkviliði Fjarðabyggðar, þar sem nýtt umhverfi, nýjar starfsstöðvar og stór hópur starfsfólks tók við. Á sama tíma stækkaði fjölskyldan um þrjú barnabörn, ferðir um náttúruperlur Austurlands urðu fastur liður og ógleymanlegar Arsenal-ferðir til London settu sinn svip á árið. Í aðdraganda jóla rifjar hann upp hefðirnar, minningarnar og það sem honum þykir ómissandi — gleðina í andlitum barnanna.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Árið var mjög skrítið að mörgu leyti en mjög skemmtilegt með fullt af nýjum áskorunum. Eftir að hafa starfað hjá Brunavörnum Suðurnesja í tæp 27 ár lét ég af störfum þar og réði mig sem slökkviliðsstjóra hjá slökkviliði Fjarðabyggðar sem er eitt af stærstu slökkviliðum landsins með um 80 starfsmenn og konur í vinnu á 6 starfsstöðvum. Það voru fáir sem héldu að það væri hægt að taka mig úr Keflavík en það verður aldrei hægt að taka Keflvíkinginn úr mér.  Svo fengum við Ása 3 barnabörn í hennar legg, tvo stráka og eina dömu; það er alltaf gleðiefni þegar það bætist í barnaskarann.  Ég hef notað árið til þess að ferðast mikið um Austurland sem er algjör náttúruperla, það er endalaust af fallegum stöðum sem hægt er að skoða, Austfirðingar segja að ég sé búinn að ferðast meira um firðina en þeir sjálfir.  Veðrið þar er eitthvað annað og ég þurfti ekki einu sinni að huga að því að fara til sólarlanda, hér var þetta eins og á suðrænum slóðum.  Svo hafa verið nokkrar ferðir til London á Arsenal-leiki með mínum bestu og eru það ógleymanlegar ferðir og verða fleiri í framtíðinni.  Það var litið um sumarfrí en ég fékk margar góðar heimsóknir austur frá vinum og vandamönnum sem var mjög skemmtilegt.  Einnig voru tímamót hjá okkur Sigurði Lárusi með Slökkviliðsminjasafnið þar sem því var lokað endalega eftir að hafa verið opið í 11 ár; það voru frekar döpur endalok á frábæru safni en nú hefur mikið af munum þaðan verið fargað, geymdir úti við eða í gömlum og jafnvel ónýtum geymslum og liggja undir skemmdum.

Ert þú mikið jólabarn?

Já, frekar svona. Mér finnst þetta mjög skemmtilegur tími og sérstaklega ef það er snjór, það er miklu jólalegra. 

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Í barnæsku þá var það alltaf á Þorláksmessu en svo breyttist það þegar maður fór að búa sjálfur, þá fór þetta að gerast miklu fyrr en þar sem ég hef verið í vaktavinnu síðan 1989 þá var það misjafnt hvenær það fór upp.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Í minningunni þá var það allt barnaefnið/teiknimyndirnar sem voru á aðfangadag, ég hafði mjög gaman af þeim.  Svo var það líka að ég vildi aldrei vera í sparifötum á aðfangadag, var bara í nærbol einum fata og var það alveg til 4-5 ára aldurs en þá gaf ég mig fyrst og fór þá í sparifötin. Það er mjög skrítið að sjá myndir af þessu í dag. 

En eru skemmtilegar jólahefðir?

Já, börnin setja alltaf stjörnuna á jólatréð á Þorláksmessu og gera það saman, fyrst var það bara Arndís og ég þurfti að halda á henni en síðan bættust við Andri, Alexander og nú hefur litli afastrákurinn Marel bæst í hópinn.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Úff er mjög lélegur í jólagjöfum og eitt árið kláraði ég síðustu jólagjöfina 5 mínútum fyrir lokun.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að sjá gleðina sem skín úr andliti barnanna.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Þegar ég var unglingur og fékk Casio-tölvuúr frá mömmu og pabba, það spilaði lög þegar vekjaraklukkan hringdi.  Svo eru það allar gjafirnar sem börnin mín hafa gefið mér í gegnum tíðina, bæði stórar sem smáar.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Þau eru mörg, ég elska jólalög og byrja að spila þau mjög snemma: Snjókorn falla, Ef líða fer að jólum, Ekki um jólin, Ef ég nenni, White christmas, Jólin eru að koma og mörg fleiri.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Home alone, Die Hard, Miracle on 34th street svo þarf ég að fara að klára Harry Potter myndirnar en ég hef byrjað á seríunni nokkrum sinnum fyrir jólin en aldrei náð að klára hana.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Ég myndi vilja vera í London yfir jól og áramót og taka inn alla jólastemmninguna sem er þar ásamt því að fara á alla leiki í enska boltanum með Arsenal og fara í Ally Pally og horfa á píluna þar. Það yrðu geggjuð jól og áramót.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Bara það hefðbundna að það verði rólegt hjá öllum viðbragðsaðilum, starfið er mjög oft krefjandi en það er alltaf erfiðara þegar slæmir atburðir gerast um jólin.

Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld?

Það er hefð sem kemur frá mömmu sem hún lærði í húsmæðraskólanum þegar hún var ung en það er „falskur héri“ mömmu style.  svolítið sérstakt en þetta er búið að smitast niður til barna, barnabarna og barnabarnabarna mömmu.  Svo geri ég að sjálfsögðu brúnaðar kartöflur eins og mamma kenndi mér að gera þær.

Eru hefðir í mat?

Falskur héri og grjónagrautur með möndlu í eftirrétt (möndlugjöf).

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári? 

Er stutt að plana langt fram í tímann en það sem er búið að plana eru tvær ferðir á Emirates og svo verður eitthvað sniðugt gert í sumarfríinu; ég ætla að fá mér fjórhjól og/eða bát og halda áfram að skoða Austfirði.

Það hefur verið hefð hjá fjölskyldunni allt frá því að Arndís, dóttir, Ingvars að taka mynd þegar jólastjarnan er sett á jólatré. Arndís var 2-3 ára þegar stjarnan var sett upp í fyrsta skiptið. „Annað hvort hélt ég á henni eða mamma hennar og svo bættust strákarnir við, Andri og Alexander og svo Marel sonur Arndísar. Það eru til myndir af öllum þessum skiptum,“ segir Ingvar um þessa skemmtilegu hefð.

VF jól 25
VF jól 25