Heklan
Heklan

Mannlíf

Saknar jólakortanna
Föstudagur 26. desember 2025 kl. 04:09

Saknar jólakortanna

Dagmar Rós Skúladóttir á margar góðar minningar frá jólum og rifjar það upp þegar hún læddist um nótt til að sjá hvort jólasveinninn væri búinn að koma með eitthvað í skóinn. Hún saknar hefðarinnar að setjast niður á aðfangadagskvöldi að lesa jólakortin. Fjölskyldan átti gott sumarfrí og fór um landið til að njóta íslenskrar sveitasælu og náttúrunnar.

Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

2025 var virkilega ljúft og gott hjá okkur fjölskyldunni. Það voru stór tímamót hjá yngsta barninu þar sem það settist á skólabekk. Stór áfangi fyrir foreldrana líka að eiga ekkert barn í leikskóla lengur.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Það sem stendur mest upp úr þegar ég horfi yfir síðastliðið ár er sumarfríið okkar fjölskyldunnar saman. Það einkenndist af ferðalögum um landið þar sem krakkarnir nutu þess að hlaupa um og leika sér í yndislegri sveitasælu og íslenskri náttúru.

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég myndi alveg segja að ég væri jólabarn. Jólin voru einn besti tíminn minn sem barn og ég legg mikið upp úr því að gefa börnunum mínum það sama og foreldrar mínir gáfu mér.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Við Einar, unnusti minn, ólumst bæði upp með lifandi jólatré og höfum haldið í sömu hefð. Jólatréð fer yfirleitt upp í kringum 20. desember en við vorum ögn villtari þetta árið og settum það upp viku fyrr.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég á erfitt með að átta mig á hversu gömul ég var á fyrstu jólunum sem ég man eftir en þau voru í æskuhúsinu mínu. Ætli ég hafi ekki verið um 7 ára, jólatréð var á efri hæðinni við hliðina á skorsteininum. Í mörg ár þegar sungið var „ég sá mömmu kyssa jólasvein“ sá ég alltaf fyrir mér jólasveininn kyssa mömmu við jólatréð okkar á efri hæðinni.

Það er oft gaman að hugsa til baka og rifja upp þessar barnæsku minningar. Í ófá skipti læddist maður fram um nóttina til þess að kíkja hvort jólasveinninn væri búinn að setja í skóinn. Tilfinningin sem maður fékk í magann þegar maður sá móta fyrir einhverju ofan í skónum sínum í myrkrinu var einstök og er það einstaklega gaman að upplifa þessa jólagleði aftur í gegnum börnin sín.

En eru skemmtilegar jólahefðir?

Við erum nokkuð hefðbundin þegar kemur að jólunum myndi ég segja.

Krakkarnir fá alltaf að opna einn pakka fyrir matinn og við hlustum á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan sex.

Jólahefð sem mér þótti ofboðslega vænt um og gaman að þegar ég var yngri var hefð sem foreldrar mínir áttu. Á aðfangadagskvöldi, eftir að allir pakkarnir höfðu verið opnaðir og allt komið í ró, settust mamma og pabbi upp í sófa með jólakortin. Þau skiptust á að giska frá hverjum hvert og eitt jólakort væri út frá skriftinni á umslaginu áður en kortin voru opnuð og lesin. Við Einar héldum í þessa hefð líka en með árunum fór jólakortum fækkandi og verð ég að segja að ég syrgi það nokkuð að jólakortin séu liðin tíð.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Það er ofboðslega misjafnt. Stundum hef ég verið mjög tímanlega með gjafainnkaupin en ætli ég sé ekki yfirleitt að taka síðustu gjafirnar rétt fyrir Þorlák.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Ætli það séu ekki sörurnar hennar mömmu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Þær hafa verið margar fallegar gjafirnar í gegnum árin, þær sem krakkarnir búa til eru yfirleitt þær allra dýrmætustu. En ætli sú eftirminnilegasta sé ekki sú sem Einar gaf mér þegar ég var um 17 ára. Það fór alveg fram hjá mér þegar hann sagði mér að eina gjöfina ætti ég að opna í einrúmi, en ég opnaði hana fyrir framan alla fjölskylduna og elsku ömmu. Ég fer ekkert nánar út í innihaldið en sem 17 ára unglingstáta hafði ég sjaldan verið jafn vandræðaleg.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

„Það snjóar’ er mitt uppáhalds jólalag.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Hér áður fyrr horfðum við Einar alltaf á Lord of The Rings-myndirnar um jólin, það hefur minna farið fyrir því síðustu ár, en það er hefð sem við þurfum klárlega að taka upp aftur. The Holiday og The Christmas Carol eru hins vegar alltaf settar í tækið.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Mörgum finnst æðislegt að vera erlendis á jólunum en ég er ein af þeim sem myndu alltaf velja að vera heima. Það er yndislegt að ferðast og við getum gert það alla aðra daga ársins en enginn staður í heiminum gæti fangað jólaandann jafn vel og akkúrat hér.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ég get ekki sagt að ég sé með neinn eiginlegan óskalista. Jólin fyrir mér snúast um að gera jólin fyrir krakkana sem ánægjulegust, svo ætli það sé ekki efst á mínum lista, eins klisjukennt og það getur nú hljómað, að sjá gleðina í augum krakkanna yfir hátíðarnar.

Hvað verður í jólamatnum hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Við erum með hamborgarhrygg á aðfangadag. Þetta var eitt af því sem við Einar þurftum að mætast á miðri leið með. Ég ólst upp við villibráð en Einar ólst upp við hamborgarhrygg.

Við vorum samróma með forréttinn en það var humarsúpan hans pabba. Þetta er eitt af þeim hlutum þar sem fótsporin eru of stór til að feta í. Sömu sögu má segja um ísinn hennar mömmu. Hann bragðast einhvern veginn alltaf miklu betur þegar þau útbúa hann (börnin okkar geta einnig staðfest það). Þau hafa því ekkert um annað að velja en að mæta með súpuna og ísinn með sér til okkar á aðfangadag.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Ég ákvað fyrir einhverjum árum að setja mér ekki eiginleg áramótaheit, eða réttara sagt ég ákvað að bíða ekki til áramóta til þess að setja mér markmið. Sama á við með mánudaga. Maður var alltaf að byrja ‘næsta mánudag’ eða ‘á nýju ári’. Allir dagar eru verðugir til betrumbóta eða nýrra heita. Mér finnst samt ofboðslega gott að taka núllstillingu í janúar, borða vel og hreyfa mig og koma mér í góða rútínu fyrir bæði sál og líkama. Heitið mitt á hverju ári síðustu ár er að vera þakklát fyrir allt það sem ég hef, þakklát fyrir góða heilsu og hraustan líkama, þakklát fyrir fjölskylduna mína og allt yndislega fólkið sem ég á í kringum mig og að halda áfram að minna mig á að finna þakklætið í hversdagsleikanum. Maður gleymir sér svo oft í amstri dagsins og dagarnir einhvern veginn líða bara áfram, en það er svo ofboðslega mikið í hversdagsleikanum sem við getum verið þakklát fyrir. Ætli þetta séu ekki meira „lífsheit“ frekar en „áramótaheit’? Þessi heit munu fylgja mér inn í nýtt ár.

VF jól 25
VF jól 25