Safnahelgi
Safnahelgi

Pistlar

Veðrið skiptir okkur öll miklu máli
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 14. júní 2024 kl. 06:08

Veðrið skiptir okkur öll miklu máli

Mjög margir pistlar sem ég skrifa hafa byrjað á einhverju sem tengist veðrinu því jú, veðrið skiptir okkur öll ansi miklu máli. Sérstaklega núna yfir sumartímann þegar að strandveiðarnar eru í gangi því bátarnir sem stunda þær veiðar eru mjög háðir veðrinu útaf því hve litlir þeir eru.

Júnímánuður byrjaði vægast sagt frekar illa því það var heil vika sem fór í súginn hjá svo til öllum bátunum og aðeins á mánudaginn fyrir um viku síðan komust átta bátar á sjó frá Sandgerði og síðan var ekkert meira róið það sem eftir var af vikunni.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þessir átta bátar sem réru voru Herborg HF með 449 kg,  Kiddi GK með 817 kg, Séra Árni GK með 601 kg, Deilir GK með 866 kg, Dímon GK með 853 kg, Snorri GK með 795 kg og Arnar ÁR með 904 kg, allir lönduðu í Sandgerði og síðan í Keflavík var Snatri KÓ með 110 kíló. 

Tóki ST fór einn á sjóinn 6. júni og náði að kroppa upp 380 kíló en báturinn landaði í Keflavík.

Reyndar þegar þessi pistill var skrifaður þá voru allir bátar á sjó og voru all margir sem náðu yfir eitt tonn. T.d. Arnar ÁR sem kom með 1,6 tonn, Snorri GK sem var með 1,4 tonn, Dímon GK með 1,3 tonn og Jói í Seli GK með 1,5 tonn. Hjá öllum þessum bátum var töluvert af ufsa í aflanum. 

Þessi vika byrjar semsé vel og miðað við þessa blessuðu veðurspá þá má búast við því að bátarnir geti róið alla þessa fjóra daga í vikunni sem þeir mega veiða. 

Annars er mjög rólegt yfir að líta núna, enginn netabátur er á veiðum, ekki bara á Suðurnesjum heldur á öllu Íslandi. 

Dragnótabátarnir eru á veiðum og var Aðalbjörg RE með 10,7 tonn í einni löndun og uppistaðan í þeim afla er koli. Benni Sæm GK með 7,3 tonn í tveimur róðrum, Siggi Bjarna GK með 6,2 tonn í tveimur, Sigurfari GK landaði líka en tölur um bátinn voru ekki komnar þegar þessi pistill var skrifaður. 

Frystitogarinn Tómas Þorvaldsson GK kom til Hafnarfjarðar með 805 tonn og var þorskur af þeim afla 330 tonn. Gjögurskipin lönduðu líka í Hafnarfirði, Vörður ÞH með 153 tonn í tveimur túrum og Áskell ÞH með 149 tonn, sömuleiðis í tveimur.

Báðar útgerðir þessara skipa hafa verið í fréttum núna síðustu daga. Gjögur hf sem gerir út Vörð ÞH og og Áskell ÞH hefur keypt sextán íbúðir handa sjómönnum sínum sem eru á togurunum en skipin er að mestu mönnuð fólki frá Grindavík og blessaða náttúran okkar er ekkert á því að hætta því sem hún er að gera í bænum, því er þessi leið sem Gjögur gerir ansi sniðug.

Hitt fyrirtækið, Þorbjörn, sem gerir út Tómas Þorvaldsson GK og Hrafn Sveinbjarnarson GK, tók þá ákvörðun að segja upp 56 starfsmönnum sínum og ætlar fyrirtækið að nota sumarið í að fara yfir hvernig reksturinn muni verða. Fyrirtækið á sér um 70 ára sögu í Grindavík en það sem er í gangi í Grindavík og við Grindavík er eitthvað sem virðist ekki sjá neitt fyrir endann á. Því er skiljanlegt að fyrirtækið endurhugsi rekstur sinn en Þorbjörn gerir út fyrrnefnda frystitogara, ísfisktogarann Sturlu GK og línubátinn Valdimar GK en þeir tveir síðastnefndu hafa séð landvinnslunni fyrir hráefni. 

Semsé, greinilegt að veður og náttúran eru að stjórna mjög miklu hjá okkur þetta árið og það sér ekki fyrir endann á því.