Pistlar

Togarar og færabátar veiða svo til á sama svæði
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 15. mars 2024 kl. 06:02

Togarar og færabátar veiða svo til á sama svæði

Tíminn æðir áfram eins og ég hef svo oft byrjað pistlana mína og að sama skapi þá heldur góða veiðin sem er búin að vera hérna við Suðurnes áfram.

Helsta veiðisvæðið er utan við Sandgerði og það eru ekki bara bátar sem landa í Sandgerði sem eru á veiðum þar því t.d. netabátarnir Þórsnes SH og Jökull ÞH eru báðir á veiðum þar og hafa landað í Hafnarfirði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

29 metra togarar frá Grundarfirði; Runólfur SH, Sigurborg SH, Hringur SH og Farsæll SH, hafa einnig allir að einhverju leyti komið þarna fyrir utan. Líka Harðbakur EA, Sóley Sigurjóns GK og Jón á Hofi ÁR.

Mjög sérstakt er að skoða ferilinn hjá þessum skipum sem eru að veiða við línuna þarna fyrir utan því þriggja mílna línan liggur þarna fyrir utan Stafnes og að Sandgerði og beygir þar í norðvestur og fer síðan yfir Faxaflóann og beint í Malarrif á Snæfellsnesi.

Á góðum dögum má sjá hóp af þessum togurunum á þessari línu og sérstaklega í þessari beygju og það má sjá þessa togara frá landi, innan við línuna er síðan hægt að sjá litla handfærabáta á veiðum svo til við þessa línu. Þetta er ansi sérstakt og líklega er þetta eina veiðisvæðið á Íslandi þar sem að færabátur er að veiða á svo til sömu slóðum og togari.

Margir sjómenn sem ég hef talað við hafa nefnt að þessa línu þurfi að færa og hafa línuna frá Hafnarbergi og þaðan beint yfir í Malarrif. Með því myndu togararnir fara utar og svæðið innan við línuna yrði þá fyrir færabátana, línubátana, netabátana og þessa fáu dragnótabáta sem eru að róa hérna.

Ekki svo vitlaus hugmynd. Reyndar hefur þessi lína þarna fyrir utan verið við lýði í líklega um 40 ár en þá voru trollbátarnir sem þá voru að veiðum margfalt minni og ekki nærri því eins öflugir og núna eru. Helstu trollbátarnir sem réru þá voru til dæmis Vörður ÞH og Oddgeir ÞH sem lönduðu í Grindavík. Elliði GK, Reynir GK, Geir Goði GK og Jón Gunnlaugs GK sem allir voru í eigu Miðness og lönduðu í Sandgerði. Allir þessir sex bátar voru allt bátar sem tóku trollið á síðuna og höfðu ekki þessa mikla toggetu sem 29 metra togararnir árið 2024 hafa.

Fyrst ég er að skrifa um togveiðarnar þá er rétt að líta á þær og byrja á frystitogaranum Baldvini Njálssyni GK en hann kom til Hafnarfjarðar með 827 tonn og af því þá voru 487 tonn af ýsu og 213 tonn af þorski. Ýsukvótinn var aukinn töluvert á þessu fiskveiðiári en vegna þess hversu mikið er af þorski í sjónum hefur gengið illa að veiða ýsu því það er alltaf einhver þorskur með en í þessum túr hjá Baldvini Njálssyni GK gekk greinilega vel að veiða ýsuna.

Sturla GK er með 257 tonn í fjórum löndunum en hann er búinn að vera á veiðum út af Þorlákshöfn og við Vestmannaeyjar og hefur landað í Þorlákshöfn. Jóhanna Gísladóttir GK með 222 tonn í þremur, landað í Grundarfirði og Hafnarfirði. Sóley Sigurjóns GK 218 tonn í tveimur, landað í Hafnarfirði og var á veiðum þarna við þessa línu utan við Sandgerði. Pálína Þórunn GK er búin að vera í slipp í Reykjavík.