Pistlar

Þegar ég var forsætisráðherra Írlands
Föstudagur 24. mars 2023 kl. 06:04

Þegar ég var forsætisráðherra Írlands

Hinn stórskemmtilegi írski dagur heilags Patreks var haldinn hátíðlegur síðastliðinn föstudag. Írski sendiherrann bauð í móttöku og ég mætti auðvitað í fína, græna flauelsjakkanum mínum í tilefni dagsins.

Þar sem ég stóð og hlustaði á ræðu írska viðskiptaráðherrans við þetta tilefni rifjaðist upp annar eftirminnilegur St. Patricks-dagur í Boston fyrir níu árum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ég var þá stödd í embættiserindum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hafði þegið boð um að vera viðstödd opnunarviðburð sjávarútvegssýningarinnar Boston Seafood Show sem árlega dregur að sér mikinn fjölda íslenskra fyrirtækja. Ég mætti ásamt ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni á tilskildum tíma við sérstakan VIP-inngang samvæmt leiðbeiningum sýningarhaldara, þar sem ábúðarfullur, einkennisklæddur maður beið okkar og fylgdi okkur leiðina að viðburðinum.

Leiðin var ansi löng, upp og niður rúllustiga og allskonar rangala um sýningarhöllina en að lokum staðnæmdist vörðurinn við stóran og troðfullan sal, þar sem prúðbúið og (að meirihluta) grænklætt fólk sat við hringborð og gæddi sér á morgunverði. Uppi á stóru sviði sátu svo óvenjumargir kaþólskir prestar í fullum skrúða. Mér þótti þetta heldur óhefðbundin opnunarhátíð en hugsaði svo sem ekki mikið út í það fyrr en að fylgdarmaðurinn minn góði benti mér á eina lausa sætið á sviðinu, í miðri prestaröðinni og bað mig að gjöra svo vel að fá mér sæti. Ég yrði svo kynnt til leiks og að beðið væri með eftirvæntingu eftir ræðunni minni.

Þarna fór mér ekki að standa á sama. Mér hafði verið boðið að vera viðstödd opnunina en enginn hafði minnst á nein ræðuhöld – og ég skildi hreinlega ekki af hverju allir þessir prestar væru þarna. Ég hafði margoft sótt þessa ágætu sjávarútvegssýningu og hafði aldrei kynnst þessari hlið á henni.

Manninum fannst ég aðeins of hæg og þar sem hann ýtti kurteislega við mér og ítrekaði að beðið væri eftir mér á sviðinu, náði ég að stama út úr mér spurningunni um af hverju ég ætti að sitja þar, það færi ljómandi vel um mig við eitthvert borðið í salnum. Maðurinn leit forviða á mig og skildi hreinlega ekki spurninguna. „Af hverju? Þú ert forsætisráðherra Írlands – þetta er þitt sæti!!“. „Nei…!!!“ nánast hrópaði ég, „ég er iðnaðarráðherra frá Íslandi!“. Þá var komið að manninum að bregða illilega – og missti snarlega allan áhuga á mér og rauk af stað til að finna forsætisráðherrann írska.

Ég gegndi sem sagt embætti forsætisráðherra Írlands í góðan hálftíma þann 16. mars 2014, fyrsta og eina konan sem hefur gegnt því mikilvæga embætti!

Eftir á að hyggja dauðsé ég eftir því að hafa ekki bara farið upp á svið og látið vaða – það hefði gert söguna enn eftirminnilegri. Ég hef líka oft velt fyrir mér hvað orðið hafi af rétta forsætisráðherranum, hvort honum hafi verið vísað beint á íslenska básinn á sýningunni!

Eftir einn Irish Coffee hefði Ragnheiður Elín örugglega tekið „River-dansinn“ í græna jakkanum?