Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Tengsl Skagafjarðar og Suðurnesja í sjávarútvegi
Útsýnið hjá aflafréttablaðamanni í Varmahlíð.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 21. maí 2021 kl. 06:36

Tengsl Skagafjarðar og Suðurnesja í sjávarútvegi

Það kemur fyrir að ég er ekki staddur á Suðurnesjum á þeim degi sem ég skrifa þessa pistla.

Núna er ég  í Varmahlíð í Skagafirðinum, og eins og gefur að skilja þá er nú ekki mikið hægt að tengja Varmahlíð við sjávarútveginn á Suðurnesjunum.  En ef ég myndi fara niður að sjó og á Sauðárkrók þá er hægt að finna ansi margar tengingar við Suðurnesin. Lítum á nokkrar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á sínum tíma var til fyrirtæki í Keflavík sem hét Hraðfrystihús Keflavíkur (HK) og það fyrir gerði meðal annars út togarana Aðalvík KE og Bergvík KE.  Seint á árinu 1988  kaupir Fiskiðja Sauðárkróks báða togarana en í staðinn þá fékk HK, togarann Drangey SK.  Sá togari var þá orðin hálfrystitogari, en HK lét breyta honum í alfrystitogara.  Reyndar gekk rekstur HK mjög erfiðlega því um mitt ár 1990 þá var Aðalvík KE, sem var áður Drangey SK, seldur til Útgerðarfélags Akureyra. Skömmu seinna þá varð HK gjaldþrota.

Fiskiðjan á Sauðárkróki kom reyndar við sögu aftur árið 1990, en þá var bátur í Sandgerði sem hét Sandgerðingur GK en sá bátur var seldur norður og fékk þar nafnið Ólafur Þorsteinsson GK. Hann kom síðan aftur suður þegar að Hólmgrímur Sigvaldson kaupir bátinn og gefur honum hafnið Tjaldanes GK. 

Að lokum má bæta við að Snorri Snorrason skipstjóri á Pálínu Þórunni GK, sem Nesfiskur á, býr á Sauðárkróki. 

Annars fer að styttast í hinn reglulega sumarboða sem kemur vanalega suður um þetta leyti og er ég þá ekki að tala um fugla, heldur dragnótabátinn Steinunni SH frá Ólafsvík.  Báturinn hefur vanalega klárað kvótann sinn í maí og hefur síðan komið í Njarðvík og þar beint í slipp og verið þar yfir sumarið.  Steinunn SH hefur mokveitt núna í maí og landað alls 322 tonnum í aðeins 9 róðrum og mest 43 tonnum.

Bátarnir frá Nesfiski voru stoppaðir af í lok apríl og fóru ekkert á veiðar aftur fyrr en núna um miðjan maí.  Siggi Bjarna GK hefur landað 19,4 tonnum,  Benni Sæm GK 14,1 tonnum, báðir í einni löndun.  Aðalbjörg RE hefur róið nokkuð duglega í maí og landað 72 tonn í 7 róðrum í Sandgerði.

Hérna að ofan þá notaði ég orðin „á sínum tíma“, og ætla að nota þau aftur núna, en á sínum tíma þegar að nýr bátur var að koma þá fór hann iðulega í sína heimahöfn og var fagnað þegar að nýir bátar komu í höfn.

Nýverið var Hulda GK afhent eigendum sínum en Hulda GK er í eigu Blikabergs ehf., sem er með fiskverkun í Sandgerði. 

Báturinn var í Hafnarfirði í nokkrar vikur meðan verið var að klára bátinn, en svo kom að því að hann fór í sína fyrstu veiðiferð.  En öfugt við það sem vaninn er þá kom báturinn ekki í sína heimahöfn, sem er Sandgerði, heldur kom báturinn til Grindavíkur og þar tók presturinn í Grindavík á móti honum og smá hóf var haldið.  Þetta er ansi furðulegt og líklegast einsdæmi á íslandi að bátur komi ekki í sína heimahöfn úr sínum fyrsta túr.