Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Sumarfrí
Föstudagur 25. ágúst 2023 kl. 08:01

Sumarfrí

Ég er týpan sem á í nokkrum erfiðleikum með að slaka á og líður alltaf best þegar allt er á fullu og hundrað hlutir að gerast í einu. Ef að það er laus stund er hún fyllt samstundis, aldrei slakað á fyrr en það tæmist algjörlega á tankinum. Í mínu fyrra pólitíska lífi var það oftar en ekki minn rólegheita þolinmóði eiginmaður sem fékk nóg og tók af skarið, pantaði ferð eitthvert fyrir okkur fjölskylduna og sagði mér að þeir feðgar væru á leiðinni í frí og að ég væri meira en velkomin með. Hann vissi sem var að hann þyrfti að ná mér eitthvert í burtu til þess að það væri einhver von til þess að ég slakaði á. Ef ég var heima í fríi fór ég að taka til í skápum, bílskúrnum (eilífðarverkefnið), aðeins að kíkja í tölvuna, gera og græja. Sonur minn, þá kannski tíu ára, hafði einmitt orð á því við mig að þá sjaldan að ég væri heima væri alltaf ég að taka til!

Núverandi líf hentar þessari týpu alveg stórvel, alltaf brjálað að gera í vinnunni, endalaus ferðalög og stanslaus straumur gesta til okkar þess á milli. Aldrei laus stund. Mér reiknast til að ég hafi fariðí vinnuferð til á milli fimmtán og tuttugu landa síðasta árið, í fimm heimsálfum, og gestirnir til okkar skipta tugum. Sumarfríið í fyrra var ekki skipulagt fyrirfram og ætluðum við bara að njóta Parísar og ferðast hér í nágrenni borgarinnar. Það fór auðvitað forgörðum þar sem eitthvað kom upp í vinnunni og ég þurfti aðeins að kíkja í tölvuna. Jólafríið fór svo í flutninga hjá okkur fjölskyldunni þannig að ég verð að viðurkenna að það var komin aðeins uppsöfnuð fríþörf hjá mér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Og má ég segja ykkur – það er rosalega gott að vera í sumarfríi! Eftir pínu brokkgenga byrjun þar sem ég gerði lítið annað en að strauja og brjóta þvott í rigningu og leiðindaveðri er ég orðin atvinnumaður í sumarfríi. Ég er heima hjá mér og slaka bara á. Ég les jólabækurnar loksins og geri krossgátur með hljóðbók í eyrunum eins og enginn sé morgundagurinn. Fer út að hjóla og í göngutúra með Lubba. Og svo hangi ég bara og geri ekki neitt. Við fórum hjónin í vikuferð til Mallorca í afmælisfagnað hjá góðum skólavini mínum og ég tók ekki einu sinni tölvuna með! Og það fór ekkert á hliðina í vinnunni, þar eru allir í fríi líka. Frakkarnir nefnilega kunna þetta – það eru allir í fríi í ágúst og nema eitthvað stórvægilegt komi upp á eru allir látnir í friði í ágúst.

Svo sef ég endalaust. Og vá hvað það er gott að sofa og vakna úthvíld. Ég get meira að segja horft á sjónvarp án þess að sofna. Á kvöldin meira að segja líka. Ég hélt að ég væri bara týpan sem gæti ekki horft á sjónvarp án þess að sofna. Synir mínir hafa held ég aldrei séð mig vaka yfir sjónvarpinu heilt kvöld – þeir eru að verða 15 og 21 árs og finnst þetta skrýtið, en frekar töff. Ég þurfti bara að sofa.

En allt tekur enda og fyrr en varir verður allt farið á fullt aftur. Þessi kona mun mæta með rækilega hlaðin batterý í vinnuna að afloknu fríi og reynslunni ríkari. Sumarfrí eru geggjuð.