Strandveiði lokið og ufsinn eltur
Jæja, þrátt fyrir að þessir aðilar sem eru með þessar háskólagráður og telji sig vita eitthvað þá bara kemur það enn og aftur í ljós að þetta háskólamenntaða lið sem er búið að vera að fylgjast með jarðhræringum á Reykjanesi, veit bara ekki neitt. Náttúran tók upp á því að koma með eitt stykki eldgos, og þá með það sama var öllu lokað í kringum Svartsengi og náttúrulega í Grindavík.
Þrátt fyrir að náttúran hafi verið að gera mönnum lífið leitt núna síðustu árin þá hefur það að miklu leyti bitnað á Grindavík, en þar er t.d Vísir ehf með vinnslu og Einhamar ehf. Stakkavík er þarna líka en hefur núna í hátt í eitt og hálft ár verið með vinnslu í Sandgerði.
Núna í júlí þá er togarafiskur það sem helst hefur komið til hafnar í Grindavík og þar er hæstur Hulda Björnsdóttir GK, sem hefur landað 438 tonnum í þremur löndunum og mest 179 tonn. Hulda Björnsdóttir GK er í eigu Ganta ehf, sem er eitt þriggja fyrirtækja sem urðu til eftir að Þorbirni ehf var skipt upp. Engin vinnsla er á vegnum Ganta en eitthvað af þorski hefur farið til vinnslu hjá Vísi ehf í Grindavík. Að öðru leyti hefur fiskurinn af Huldu Björnsdóttir GK farið á fiskmarkað.
Bergey VE kom með 74 tonn til Grindavíkur og kom sama dag og gosið byrjaði. Jóhanna Gísladóttir GK er með 136 tonn í tveimur löndunum í Grindavík.
Stóra spurningin sem allir reyndar spyrja sig, hvenær hættir náttúran að koma með þessi eldgos? Ja, það hefur sýnt sig að háskólamenntaða liðið veit ekki neitt um það en ef farið er í söguna 800 ár aftur í tímann, þá kemur í ljós að þegar að síðast voru svona eldgos og jarðhræringar á Reykjanesinu, sem meðal annars bjó til Illahraun þar sem Svartsengi er, að þá var svona hrina í gangi í um 80 ár. Svo það sem er í gangi núna, er það að klárast? Það veit enginn en mín tilfinning er reyndar að þetta sé ekki búið.
Brotin loforð
Allavega á meðan að náttúran var að skipta sér af með þessu eldgosi, þá fengu strandveiðisjómenn heldur betur kalda vatnsgusu á sig því þegar að ný ríkisstjórn var mynduð þá voru tvö mál sem stóðu þar svolítið hátt í því sem hún ætlaði sér að gera, það var veiðigjaldafrumvarpið og breyta lögum þannig að strandveiðisjómenn fengu sína 48 daga eins og var lofað. Því miður þá náðist ekki að koma 48 daga frumvarpinu í gegn út af málþófi stjórnarandstöðunnar út af veiðigjaldafrumvarpinu og það þýddi að 16. júlí fóru hátt í 30 bátar á sjó frá Sandgerði og þrír frá Grindavík á strandveiðar og seinna sama dag þá voru sett lög og strandveiðar bannaðar frá og með 17.júlí 2025. Þetta er mikið áfall fyrir sjómenn á þessum bátum en hvað tekur þá við? Jú ansi margir bátar ætla sér að fara að eltast við ufsann og reyndar þegar þessi pistill er skrifaður þá voru fyrstu bátarnir farnir á ufsann frá Sandgerði, Snorri GK og Ragnar Alfreðs GK.
Reyndar þá var júlímánuður hjá strandveiðibátunum hérna á Suðurnesjunum bara þokkalega góður og það voru níu bátar sem náðu yfir 5 tonna afla í júlí og flestir með þann afla í fáum róðrum.
Stakkur GK frá Grindavík var með 5,4 tonn í sjö róðrum, mest 1,3 tonn og 773 kg í róðri að meðaltali. Sandvík KE frá Sandgerði var með 5,5 tonn í sjö róðrum og mest 1,2 tonn. Ólafur GK frá Grindavík var með 5,6 tonn í sex róðrum og mest 1,6 tonn, 936 kíló í róðri að meðaltali. Hawkerinn GK frá Sandgerði var með 6,2 tonn í níu róðrum og mest 1,4 tonn. Grindjáni GK frá Grindavík var með 6,5 tonn í sjö róðrum og mest 1,2 tonn.
Sella GK var með 6,5 tonn í aðeins sex róðrum og mest 1,9 tonn, 1086 kíló í róðri að meðaltali. Snorri GK frá Sandgerði var með 7 tonn í sjö róðrum og mest 1,6 tonn. Síðan kom Dímon GK með 7,5 tonn í tíu róðrum og mest 1,2 tonn en það má geta þess að það var leiðindaveður einn daginn sem bátarnir máttu fara á sjó en Dímon GK var þá eini báturinn sem var á sjó.
Og síðan er það Sævar Baldvinsson skipstjóri á Guðrúnu GK frá Sandgerði, hann átti feikilega góðan júlímánuð og gerði sér lítið fyrir og var með 11 tonn í níu róðrum og mest 2,5 tonn.
Ekki nóg með að Sævar hafi verið lang aflahæstur á Suðurnesjunum í júlí, heldur var hann í þriðja sæti yfir allt landið í júlí af strandveiðibátunum, með meðalafla uppá um 1,2 tonn. Stór hluti af þessum afla var ufsi hjá.