Bilakjarninn
Bilakjarninn

Pistlar

Vítaspyrnukeppni
Laugardagur 19. júlí 2025 kl. 06:13

Vítaspyrnukeppni

Úps, því miður náði íslenska kvennalandsliðið ekki þeim árangri sem við var búist, en svona er fótboltinn. Þær reyndu hvað þær gátu, en það reyndist ekki nóg. Held að meginhluti þjóðarinnar hafi verið komin í gírinn búinn að kaupa popp og kók og tilbúinn að njóta þeirrar gleði sem fylgir góðum árangri. Horfa á beinar útsendingar og sleppa fram af sér beislinu. Geta stolt notið þess að vera í hópi þeirra bestu í stutta stund frjáls og fullvalda þjóð í öllum samanburði við aðrar þjóðir.

Stelpurnar okkar áttu að bjarga sjálfsmynd þjóðarinnar og öllu öðru gleymt um stundar sakir en það varð ekki. Í staðinn sátum við uppi með beinar útsendingar frá Alþingi þar sem „okkar bestu synir og dætur“ héldu þúsundir ræðna um sama efnið og æfa sig í að svara sjálfum sér í ræðustól. Nei það hefði verið mikil guðs blessun ef stúlkunum hefði auðnast að komast áfram og þjóðinni hlíft við þeirri niðurlægingu sem minnihluti Alþingis sýnir því lýðræði sem við höfum kosið að búa við.

Það er eiginlega galið að maður skuli í miðju sumarfríi ellilífeyrisþegans sem er nær dauða en lífi í aldri talið fara að velta því alvarlega fyrir sér hvort lýðræðið geti verið í hættu. Sérstaklega þegar að svo stutt síðan að kosið var til Alþingis. Skilaboðin voru skýr, meirihluti þjóðarinnar vildi breytingar frá því sem verið hafði. Umboðið gat ekki verið skýrara, en minnihlutinn sá ákveðin ómöguleika í þeirri niðustöðu að meirihlutinn réði.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það er gaman að fara í vítaspyrnukeppni. Fimm víti hver og sá sem skorar úr fleiri  vinnur. En stundum hleypur skapið með mann í gönur, sérstaklega hjá þeim sem láta tilfinningarnar og skapið hlaupa með sig í gönur. Ég man eftir sem barnungur drengur að hafa lent í því í vítaspyrnukeppni milli okkar bræðra. Sá sem vann mátti ráða.

Ég tapaði stórt en gafst þó ekki upp. „Þrjú víti í viðbót“ sagði ég í þeirri von að ég ynni upp muninn og mætti ráða. Það gerðist ekki, og ég varð að sætta mig við niðurstöðuna. Ég fór að gráta, hljóp til mömmu og lét vita að Oddur hafði svindlað. Nú fengi ég ekki lengur að ráða, þó ég væri bæði eldri og stærri. Hún útskýrði blíðlega að svona væru nú reglurnar og því þyrfti ég að una. Jafnvel þó ég héldi að ég væri stærri og sterkari.

Ég ber mikla virðingu fyrir stelpunum okkar sem töpuðu sínum leikjum með sæmd. Datt ekki einu sinni í hug að halda áfram eftir að lokaflautið gall, vitandi að hitt liðið væri farið í sturtu. Þær kunna leikinn og reglurnar og láta sér ekki detta í hug að þær geti spilað áfram þegar leikurinn er búinn. Mikið væri nú gott  að ræðusnillingarnir við Austurvöll færu nú í sturtu. Hugsuðu út fyrir sjálfan sig og færu með fjölskyldum sínum í gott sumarfrí. Færu út í sumarið og nytu þess góða og fallega sem íslensk náttúra hefur upp á bjóða. Burtu með leiðindin og inn með gleðina.