Bilakjarninn
Bilakjarninn

Pistlar

Löng útgerðarsaga nafnsins Hraunsvíkur GK
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
laugardaginn 28. júní 2025 kl. 06:15

Löng útgerðarsaga nafnsins Hraunsvíkur GK

Tíðarfarið í júní hefur verið nokkuð gott, fyrir utan smá brælukafla í byrjun mánaðarins. Nú þegar langt er liðið á mánuðinn er tilefni til að líta aðeins yfir aflabrögðin.

Strandveiðibátarnir eru að langmestu leyti í Sandgerði, þar sem allt að 60 bátar landa á einum degi. Þá er einnig töluverð starfsemi í Keflavík, en í Grindavík eru strandveiðibátarnir fáir. Þar eru hins vegar stóru línubátarnir og togararnir sem hafa verið að landa núna undanfarið.

Yfir sumartímann er iðulega mikið líf og fjör í slippnum í Njarðvík. Um þessar mundir eru þrír bátar í vélaskiptum. Búið er að skipta um aðalvél í Hafdísi SK, sem er Kínabátur og systurbátur Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK. Nú er Siggi Bjarna GK kominn í slippinn í vélarskipti, og einnig er Óli á Stað GK þar í slipp.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Í þessum sama slipp er nú bátur með nafn sem á sér merkilega sögu. Stálbáturinn Hraunsvík GK er þar í viðgerð, en nafnið „Hraunsvík GK“ á sér langa og merka útgerðarsögu í Grindavík.

Saga nafnsins nær aftur til ársins 1970, en útgerðin sjálf hófst árið 1966 þegar bræðurnir Gísli og Sæmundur Jónassynir stofnuðu fyrirtækið Víkurhraun hf. Árið 1970 keyptu þeir eikarbátinn Gissur ÁR, um 70 tonn að stærð, sem fékk nafnið Hraunsvík GK 68. Þennan bát áttu þeir til ársins 1988, þegar hann var seldur.

Næsti bátur undir sama nafni var plastbátur, nokkuð minni en forverinn, og var hann gerður út fram til aldamóta. Þá tók við þriðji báturinn, um 200 tonna stálbátur, sem einnig bar nafnið Hraunsvík GK 68. Sá var aðeins gerður út í þrjú ár.

Fjórði báturinn með þessu nafni var áður þekktur sem Jón Garðar KE og hafði verið gerður út frá Sandgerði frá árinu 1996. Sá bátur fékk nafnið Hraunsvík GK 68 og var hann sömuleiðis aðeins gerður út í um þrjú ár.

Fimmti og núverandi báturinn sem ber nafnið Hraunsvík GK var keyptur árið 2007 og hefur verið gerður út síðan — nú í 18 ár, allt til ársins 2025.

Ástæða þess að báturinn er nú í slipp er ekki hefðbundið viðhald heldur það að Víkurhraun hf. hefur selt hann. Þegar hann kemur út úr slippnum í Njarðvík mun hann bera nýtt nafn, en á þessari stundu er ekki vitað hvað það nafn verður.

Núverandi Hraunsvík GK er ekki stór bátur, um 14,5 metrar að lengd og 24 tonn að stærð. Hann var smíðaður í Svíþjóð árið 1984 en hefur verið mikið breytt síðan hann kom til landsins. Báturinn hefur verið lengdur og breikkaður, þilfar hækkað og skipt um brú.

Þótt báturinn sé ekki stór var hann um tíma á togveiðum — meðal annars á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi og síðar á humarveiðum við Vestmannaeyjar. Hann var einn af minnstu bátum sem stunduðu humarveiðar og bar þá nafnið Gunnvör ÍS.

Eftir að báturinn fékk nafnið Hraunsvík GK árið 2007 hefur hann ekki farið á togveiðar, hvorki í rækju né humar. Aðalveiðarfærið síðustu ár hefur verið net.