Thrifty Fólksbílar

Pistlar

Stopp hingað og ekki lengra. Það er komið nóg!
Föstudagur 17. janúar 2020 kl. 07:02

Stopp hingað og ekki lengra. Það er komið nóg!

Nafn nýja áhugahópsins um örugga Reykjanesbraut, Stopp hingað og ekki lengra, hefur sjaldan átt betur við en núna í vikunni þegar Reykjanesbraut lokaðist á sama tíma á tveimur stöðum vegna óhappa í umferðinni þar sem einn maður lét lífið og þúsundir lentu í vandræðum og töfum.

„Í gær gerðist allt sem við höfum undanfarið hræðst, rúmlega 10.000 manns urðu innlyksa vegna lokunar Reykjanesbrautar. Engin virðist hafa áhuga og allir aðilar málsins benda hver á annan. Í gær varð hræðilegt banaslys vegna framanáaksturs á hættulegasta vegakafla landsins frá Hvassahrauni til Krísuvíkurafleggjara. Hversu mörg banaslys verða þangað til einhver ráðamaður vaknar, tekur raunverulegar ákvarðanir og lætur verkin tala?,“ skrifar Guðbergur Reynisson, einn af talsmönnum „Stopp hingað og ekki lengra“, baráttuhóps um aukið umferðaröryggi á Reykjanesbraut.

Það er óþægilegt og erfitt að horfa upp á þessa döpru stöðu árið 2020, að það sem gerðist þarna geti gerst, og muni líklega gerast, aftur. Á þessum tveimur vegaköflum er beðið eftir tvöföldun og henni hefur verið seinkað um nokkur ár þó svo þrýstingur á ráðamenn og Alþingi hafi verið mikill. Það vita allir að þetta banaslys, og þessi óhöpp og lokun á brautinni, hefði aldrei komið til ef þessir vegakaflar væru tvöfaldir en það hefur sýnt sig þar sem Reykjanesbrautin er tvöföld. Þar er fólk nánast öruggt – þó svo það sé kannski ekki hægt að segja að neinn sé öruggur neins staðar.

Árið 2000 fengu Suðurnesjamenn nóg og hreinlega lokuðu Reykjanesbrautinni við þáverandi Grindavíkurafleggjara. Héldu síðan eitt þúsund manna borgarafund þar sem ástandinu var mótmælt. Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut var stofnaður og hann hélt uppi þrýstingi á stjórnvöld sem hafði þau áhrif að ákveðið var að fara í tvöföldun Reykjanesbrautar. Var hún síðan tvöfölduð í tveimur lotum á nokkrum árum frá Hafnarfirði að Fitjum. Það er deginum ljósara að þrýstingur fólks í þessu máli hafði langmest áhrif því þingmenn og ráðamenn höfðu rætt um að það þyrfti að tvöfalda brautina í mörg ár, án árangurs.

Lokun brautarinnar er ekki raunhæf í dag. Staðan er einfaldlega miklu flóknari og því þarf að finna aðrar leiðir til að koma þessu máli í gegn. Með góðu eða illu.

Hvað hefði t.d. gerst ef rúta hefði oltið á sama tíma með 50 manns. Hvernig hefði því fólki verið komið á sjúkrahús og bráðamótttöku í Reykjavík þegar brautin er lokuð vegna umferðarslyss og ófærðar? Hvar hefðu sjúkrabílar átt að fara? Ekki hefði verið hægt að taka við nema hluta hópsins á Heilbrigðistofnun Suðurnesja og ekki væri hægt að nota lokaðar skurðstofur þar.

Þetta mál varðar ekki bara Suðurnesjamenn. Það eiga allir undir í þessu máli. Við erum að taka á móti milljónum ferðamanna og þurfum að gera okkur betur grein fyrir því. Þegar þessi vandræði komu upp í óveðrinu í vikunni sáum við samtakamátt Suðurnesjamanna þegar sett var upp í snarhasti stærsta fjöldahjálparstöð í íþróttahúsi Keflavíkur og það hefur ekki gerst síðan í Vestmannaeyjagosinu. Starfsmenn Rauða krossins, Icelandair, björgunarsveitarfólk og fleiri lögðu hönd á plóginn svo hægt væri að hýsa fólkið sem komst ekki í flug sem það átti pantað.

Það eru til leiðir til að leysa þennan vanda sem er stór eins og kom berlega í ljós í þessu óveðri. Við munum áfram fá óveður og þess vegna þarf að gera eitthvað róttækt og koma þessum samgöngubótum í gegn – ekki seinna en strax! Um það eru allir sammála nema kannski þingheimur Íslands sem hefur tafið þetta mál.

Páll Ketilsson,
ritstjóri Víkurfrétta.