Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Örvhentur...
Föstudagur 14. ágúst 2020 kl. 07:09

Örvhentur...

Það er margt furðulegt að eiga við þessa dagana. Veira sem við köllum COVID-19 stýrir ferðinni. Ferðaþjónusta um heim allan er í lamasessi. Í sumum löndum er skylda að ganga með grímur, í öðrum ekki. Hér á landi er skylda að halda tveggja metra reglu en samt ekki. Það er bannað að leika knattspyrnu en það má sækja öldurhúsin – en samt bara til 23:00 á kvöldin. Maður gerir nefnilega minni skandala þegar maður er pöddufullur klukkan 22:30 en klukkan 01:30.

Lögreglan fer nú milli staða og fylgist með hvort veitingahúsaeigendur séu að setja upp aðstöðu sína þannig að hægt sé að fylgja tveggja metra reglunni. Samt sitja allir hlið við hlið og engin borð ná að vera tveir metrar á breidd eða í radíus. Strætóbílstjórar keyra flestir með grímu en farþegarnir virðast flestir vera án þeirra.

Sem atvinnurekandi í ferðaþjónustu hef ég fengið að kynnast flestum hliðum veiruvandamálsins. Viðskiptin hafa hrunið. Uppsagnir hafa fylgt í kjölfarið. Við lofuðum að bjóða því starfsfólki sem fékk uppsögn vinnu ef hægt væri. Þegar umsvifin voru aðeins meiri en búist var við í júlí var leitað til starfsmanna um snúa aftur til vinnu. Allir sem leitað var til, kusu frekar að vera áfram á atvinnuleysisbótum. Bendir annað hvort til þess að ég sé hörmulegur vinnuveitandi – eða kerfið okkar sé eitthvað skakkt. Af hverju vill fullfríkst fólk frekar gera ekki neitt og þiggja atvinnuleysisbætur en vinna?

Það er kannski líka alveg hægt að spyrja af hverju eru þeir sem nota vinstri hönd frekar en hægri kallaðir örvhentir? Eru þeir ekki alveg jafn rétthentir, bara á vinstri?

Njótið lífsins. Spilið golf.
Það er það eina sem er öruggt.

Margeir Vilhjálmsson.