Pistlar

Ómíkrón stjórnin?
Laugardagur 4. desember 2021 kl. 06:35

Ómíkrón stjórnin?

Ansi fjörug þessi vika, ný ríkisstjórn kynnt til leiks og nýtt afbrigði kórónuveirunnar Ómíkron mætti á svæðið með miklum látum. Vonandi er þetta mild útgáfa af veirunni en nafnið bendir þó til annars því það gæti verið nafn einhvers illmennis úr James Bond mynd. Á örugglega eftir að sakna Delta afbrigðisins.

Já, ríkisstjórn var loksins mynduð mánuðum eftir kosningar en blessað talningarklúðrið í Norðvesturkjördæmi tafði þetta ferli allhressilega. Undirbúningskjörbréfanefnd var í mikilli yfirvinnu á meðan aðrir þingmenn voru að þrífa skít og drullu á Alþingi en skilaði svo loks áliti og skýrslu eftir nokkra tugi heimsókna í Borgarnes. Það er vissulega gaman í Borgarnesi. Seinni talning var látin gilda og að sjálfsögðu samþykkti Alþingi svo eigin rannsókn en sumir sátu þó eðlilega hjá. Reyndar vildi einn Píratinn kjósa aftur, í öllum kjördæmum, en það var kolfellt. Hefði ekki verið tilvalið að hafa kosningar á Þorláksmessu? Kjörstaðir jafnvel í verslunum og opið til 23 til þess að ná þátttökunni upp (taka svo einn kaldan með sér í kjörklefann)? Hægt væri að kaupa síðustu jólagjöfina og kjósa í leiðinni, talning færi svo fram á aðfangadag og úrslit tilkynnt á jóladag. Prófum það kannski í næstu kosningum en nýja ríkisstjórnin var svo kynnt formlega á sunnudaginn síðasta og landsbyggðin (þá sérstaklega okkar kjördæmi) reið ekki feitum hesti (eins og endranær) þegar kom að því að útdeila ráðherrastólum þrátt fyrir að stólunum hafi fjölgað talsvert. Báknið blæs vel út en þó ekki út á land. Suðurkjördæmi fær reyndar ráðherraembætti á miðju tímabili, bót í máli segja sumir en hálf glatað verð ég að viðurkenna. Eins og sárabótamark í knattspyrnuleik þegar staðan er 3:0!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Merkustu tíðindin að mínu mati eru þau að Willum Þór Þórsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur í knattspyrnu, tekur við heilbrigðisráðuneytinu. Þar er á ferð vandaður maður sem á ærið verk fyrir höndum en ljóst er að spýta þarf hressilega í lófana í þessum málaflokki. Þórólfur saknar Svandísar en spurningin er hvernig sambandi þeirra Willums verður háttað? Vonandi tekst Willum að gera það sem engum hefur tekist síðustu áratugi en það er að koma þessu kerfi í stand. Sjáum hvað setur en ég óska nýju stjórninni velfarnaðar og vonandi gleyma þau okkur ekki hérna fyrir sunnan. Það hefur gerst áður.

Örvar Þór Kristjánsson.