Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Pistlar

Norskir kafarar
Föstudagur 29. september 2023 kl. 06:34

Norskir kafarar

Haustið er komið, íslensk náttúra skartar sínu fegursta með sínum þúsundum litaafbrigða og hauststillurnar gefa okkur tilefni til að njóta útiverunnar og safna í okkur krafti fyrir komandi vetur – en fegurðin hefur verið rofin, mikið er breytt. Fari maður í göngutúr meðfram ám á Norðvesturlandinu er það ekki lengur vatnsniður og náttúrufegurð sem mætir manni, heldur rassar norskra kafara sem snorkla um árnar sem vekja hvað mesta eftirtekt. Þeir segja að það hafi orðið umhverfisslys, eldislaxar hafi sloppið úr kvím og ógni nú íslenska laxastofninum. Slys er samkvæmt orðabók eitthvað það sem gerist óvænt, óhapp og gerist án vilja manns.

Norsku kafararnir fara nú á milli vatnasvæða og reyna að ná í mikinn fjölda kynþroska eldislaxa sem að öllum líkindum eru farnir að hafa áhrif á íslenska laxastofninn. Að tala um slys er til þess gert að fegra stöðuna. Staðreyndirnar tala þar sínu máli, skýrsla Ríkisendurskoðunar um stöðu laxeldis í fjörðum segir okkur að svo sé. Eftirlit með greininni er í algjöru lágmarki og viðhorf þeirra sem að laxeldinu standa sýna algjört virðingarleysi gagnvart þeirri veiku reglugerð sem þó er til staðar. Sjókvíar með fóðurvélum sem vitað var að gátu rifið net flotkvínna voru látin eftirlitslaus í þrjá mánuði, þó vel væri vitað hvað var í húfi. Það kallast ekki slys, heldur vítavert kæruleysi. Það er þess vegna sem norskir kafarar leika nú aðalhlutverkið í íslenskum ám.

Kristinn H Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi ritstjóri Bæjarins Besta á Ísafirði, er bara slakur, segir enga hættu á ferð og fjárhagslegir hagsmunir landsins slíkir að við skulum bara halda áfram á sömu braut. Það er ekki hans eða annarra hagsmunaaðila að ákveða það. Það er hlutverk Alþingis. Fyrir því liggur að ákveða hvort hinn villti, íslenski laxastofn fái um ókomin ár að synda um ár landsins eða hvort taka beri fjárhagslega hagsmuni fiskeldisins fram yfir viðgang villta íslenska laxastofnsins – en hjá slíkri ákvörðun verður ekki komist í ljósi atburða haustsins.