Pistlar

Mynd- og handmennt og heimilisfræði
Föstudagur 14. október 2022 kl. 07:24

Mynd- og handmennt og heimilisfræði

Í reglugerð fyrir skólann 1872 er m.a. kveðið á um kennslu handavinnu stúlkna. Meðal annara kenndi Svanborg Grímsdóttir handavinnu stúlkna fyrstu árin, aðallega börnunum sem bjuggu í skólahúsinu. Aðsókn var ekki mikil, eins og segir í grein Stefáns Thorarensen um skólahald 1876–1877: „„Handvinnukennsla“ (fyrir fermdar og ófermdar stúlkur) var enn sem fyr boðin, af kennarakonunni, orðlagðri hannyrðakonu og leikinni í að kenna handavinnu; en engin gaf sig fram. Sagði hún því einungis þeim Thorchilliisjóðsbörnum til í handvinnu, er þá tilsögn gátu þegið.“ Síðar í sömu grein leggur hann til að öllum tilraunum til handavinnukennslu verði hætt.

Á þessum árum hafa sumir kennarar skólans eflaust kennt einhverja handavinnu. Friðrikka Hallgrímsdóttir frá Austurkoti var sérmenntaður handavinnukennari og kenndi veturinn 1926–1927. Ingibjörg Erlendsdóttir kenndi í Vatnsleysuskóla 1934–1936 konum og stúlkum handavinnu að þeirra ósk, einu sinni í viku eftir að kennsludegi barnanna lauk. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Haustið 1938 barst bréf frá samtökum barnakennara um að efnt verði til sýninga í barnaskólum landsins á komandi vori á skólavinnu barna. Viktoría skólastjóri leitaði álits skólanefndar hvort taka skyldi upp handavinnukennslu í skólum hreppsins á þeim vetri. Var það samþykkt og kennurunum falið að koma kennslunni í framkvæmd.

Bjarni M., námstjóri, kynnti skólanefnd 1942 hugmynd um umferðarkennslu í handavinnu, leikfimi og söng, þannig að kennari fari á milli fámennra skóla sýslunnar og haldi námskeið í þeim greinum. Eitthvað mun þetta hafa verið reynt, t.d. var umferðarkennari í íþróttum 1945, en erfitt var að fá slíkan kennara í handavinnu drengja vegna mikillar eftirspurnar eftir smiðum.

Haustið 1951 fær Sigrún Þórðardóttir á Vatnsleysu leigða skólastofu til að vera með námskeið í saumaskap kl. 15:30–22, í fjórar til fimm vikur. Skyldi hún gjarna greiða húsaleigu með því að kenna skólabörnum líka. Sigrún er frábær listmálari. Skólastjórafrúrnar Jóhanna Snorradóttir og Rúna Gísladóttir kenndu handavinnu stúlkna 1964–1970. Helga S. Árnadóttir kenndi oft handavinnu á sínum langa kennsluferli, eins og hvaðeina sem þurfti, m.a. bast og leðurvinnu um tíma. Sesselja Sigurðardóttir (Lella) Hellum kenndi handavinnu 1976–1989, m.a. í gryfjunni. Þá var aðeins til ein saumavél. Á hennar tímabili varð sú breyting að bæði kynin skyldu eiga völ á bæði hannyrðum og smíði. Um tíma var bara 3. bekk breytt þannig að súlkum var kennd smíði og drengjum hannyrðar en óbreytt í öðrum bekkjum.

Aðstaða til handavinnu drengja (smíða) hefur komið seint til. Árið 1949 lagði skólanefnd til að komið yrði upp húsnæði fyrir kennslu íþrótta og smíða, en það varð ekki fyrr en löngu síðar. Um það leyti kenndi Jón H. Kristjánsson í einhverjum mæli smíðar í almennri kennslustofu. Árið 1958 fékk kvenfélagið Fjóla bréf frá skólanefndinni, þar sem falast var eftir Kirkjuhvoli undir handavinnu drengja. Var það samþykkt, en gekk þó ekki eftir. Þá fór Hannes í Sætúni (skammt frá skólanum) að kenna drengjum í eldri bekkjunum smíði heima hjá sér. Síðan var kennd smíði í íbúðarhúsinu Barmi í Vogum í 4 ár og síðar í Laufási. Mun Jón skólastjóri hafa kennt þar, líka Magnús Skúlason smiður, og um 1962–1964 var það Ellert skólastjóri. Valberg Helgason smiður kenndi drengjum 1966–1969 smíði í bílskúr sínum Hafnargötu 22. Stormur Þorvarðarson tók við af honum og kenndi í Hábæ og hjálpaði til dæmis þrem drengjum að smíða sér kajaka sem þeir reru á sjónum. Hörður Rafnsson kenndi um tíma, einnig Guðlaugur Guðmundsson Hann leysti Jón Inga einnig af.

Jón Ingi Baldvinsson kenndi smíðar að kvöldlagi í fyrrum húsnæði verslunarinnar Hábæjar árin 1978–1980. Þegar skólinn flutti í Voga 1979, fékk Jón Ingi rúmgóða aðstöðu í  Brunnastaðaskólahúsinu og upp frá því nutu allir bekkir smíðakennslu nema þau allra yngstu. Það hús var  gert að íbúðarhúsi 1988. Sett var upp laus smíðastofa við skólann í Vogum og þar eru drengirnir á myndinni að smíða það ár. Jón Ingi kenndi þar flest árin, en Helga Ragnarsdóttir, nýútskrifaður kennari, 1995–1997.

Þegar ný álma Stóru-Vogaskóla var byggð 1997 var vinnuaðstöðu kennara breytt í vandaða smíðastofu sem enn er í notkun. Helgi Már Eggertsson kom frá Akureyri og var smíðakennari 1998–2008. Hann var líka með námskeið fyrir eldri borgara í stofunni.

Þegar skólahúsið var enn tvöfaldað að stærð 2005 varð loks til vel tækjum búin hannyrða/textílstofa. Stofan var búin mörgum saumavélum sem kvenfélagið Fjóla gaf. Þar hafa kennt Guðrún Viðars, Diljá Jónsdóttir, Rakel Rut og lengst Oktavía J. Ragnarsdóttir.

Við stækkunina 2005 kom einnig til sérstofa í myndlist. Valgerður Guðlaugsdóttir, myndlistarkona, kenndi þar myndlist frá 2006 þar til hún lést í ársbyrjun 2021. Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, myndlistarmaður og maður Valgerðar, leysti hana af í barnsburðarleyfi 2010 og var síðan smíðakennari 2012–2020. Hann tók svo við myndlistinni 2022. Valgerður hannaði merki skólans, sjá mynd.

Fyrstu öld skólans var heimilishald kennt í kvenna- og húsmæðraskólum um land allt. Heimilisfræði varð til á 8. áratugnum sem verkleg og bókleg námsgrein í grunnskólum, jafnt fyrir drengi sem stúlkur. Farið er að kenna heimilisfræði í Stóru-Vogaskóla 1990 í vel útbúinni stofu. Helga Sigríður Árnadóttir tók veturinn 1988–1989 launað ársleyfi og tók þrjá bekki við  Hússtjórnarskólann í Reykjavík og endaði sinn langa kennsluferil sem heimilisfræðikennari. Nemendur á öllum aldri sýna greininni mikinn áhuga. Hún er kennd í öllum árgöngum, nema valgrein í efstu bekkjum.


Heimildir, m.a. munnlegar frásagnir 1922: Reynir Brynjólfsson, Helgi Guðmundsson, Jón Ingi Baldvinssona Sesselja Sigurðardóttir, Helgi Már Eggertsson, Helgi Hjaltalín, Oktavía J. Ragnardóttir og Særún Jónsdóttir. Gjörðabók skólanefndar. Grein Stefáns Thorarensen í Ísafold 1879. Óbirt grein Sesselju Guðmundsdóttur. Grein Bergsveins Auðunssonar í Faxa 1990.