Pistlar

Mokveiði og nóg af fiski í sjónum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 16. febrúar 2024 kl. 06:00

Mokveiði og nóg af fiski í sjónum

Febrúarmánuður, stysti mánuður ársins, byrjaði með leiðindabrælum en þá daga sem hefur gefið á sjóinn hefur verið mokveiði.

Kannski er það athyglisverðasta að færabátarnir hafa líka náð að fara á sjóinn og flestir þeirra hafa verið á veiðum við Hafnarbergið og við Reykjanesið, þeir eru þar að eltast við ufsann og gengur það nokkuð vel. Til dæmis er Dímon GK með 1,7 tonn í tveimur róðrum, Líf NS 637 kíló í einni löndun en þess má geta að þetta var fyrsta löndun bátsins árið 2024. Annar bátur, Margrét SU, hóf líka róðra og kom með 562 kíló, þessi bátur er einn af örfáum eikarbátum sem ennþá eru gerðir út á Íslandi. Aðrir færabátar eru Guðrún GK sem er kominn með 3,6 tonn í þremur róðrum og Agla ÁR sem er með 4,7 tonn í fjórum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Línubátarnir hafa mokveitt og svo mikil hefur veiðin verið að bátarnir hafa ekki einu sinni náð að draga alla línuna í einu. Til dæmis fór Hulda GK með 16.000 króka, eða um 38 bala, snemma í febrúar og eftir að hafa aðeins dregið um tuttugu bala var báturinn orðinn fullur af fiski og kom til Sandgerðis með 8,9 tonn. Aftur fór Hulda GK út og dró restina af krókunum og kom með um 8,9 tonn. Samtals var því Hulda GK með tæp 18 tonn á þessa króka, þetta gerir um 468 kíló á bala.

Vigfús Vigfússon er skipstjóri á Huldu og þremur dögum síðar fór Hulda GK aftur út en í þessum róðri ákvað Vigfús að fækka krókunum niður í 11.000, það reiknast u.þ.b. 26 balar. Þrátt fyrir að fækka krókunum var mokveiðin ennþá meiri því eftir að hafa aðeins dregið um fjórtán bala var báturinn aftur orðinn fullur af fiski og kom til Sandgerðis með 10,5 tonn, sem reiknast sem 750 kíló á bala. Aftur fór Hulda GK út til þess að draga restina af krókunum og kom þá í land með 9,3 tonn á þá tólf bala sem eftir voru. Samtals gerði því þessi túr 19,7 tonn, það reiknast sem 759 kíló á bala, það er ekkert annað en mok og það mikið mok.

Óli á Stað GK lenti líka í moki og þurfti hann líka tvær ferðir til þess að ná sínum afla, fyrst með um 14 tonn í land og síðan með um 9 tonn, samtals um 23 tonn sem fengust á um 15.000 króka.

Kiddó Arnberg, skipstjóri á Daðey GK, lenti þó kannski í mesta ævintýrinu því það er ekki óalgengt að bátar þurfi að fara tvær ferðir til þess að ná að draga alla línuna sína eða þá net. Mokið og veiðin hjá Daðey GK var það mikil að hann þurfti að fara í alls þrjár ferðir til þess að geta dregið línuna. Daðey GK fór út með 18.500 króka, það reiknast sem 44 balar. Eftir að hafa dregið einungis 22 bala var báturinn orðinn fullur af fiski og kom til Sandgerðis með 11,7 tonn, það reiknast sem 533 kíló á bala. Daðey GK þurfti því að fara aftur út og þá bjóst Kiddó og hans áhöfn við að þeir myndu ná að draga alla línuna en nei, aldeilis ekki því eftir að hafa aðeins dregið fjórtán bala var báturinn aftur orðinn fullur af fiski og kom aftur í Sandgerði og var þá með 10,1 tonn, það gerir 719 kíló á bala. Því var ljóst að Daðey GK þurfti að fara í þriðja róðurinn og þó að krókarnir væru mjög fáir eftir í sjónum, eða átta balar, var feikilegt mok á þessa fáu bala. Þeir gáfu af sér 6,7 tonn, það reiknast sem  843 kíló á bala, feikileg veiði. Samtals gerðu því þessar þrjár ferðir hjá Daðey GK 28,6 tonn, eða um 650 kíló á bala.

Daðey GK er gerð út af Vísi hf. í Grindavík en vegna þess hvað er að gerast í Grindavík hefur aflinn af Daðey GK verið seldur á fiskmarkaði síðan í nóvember og er sjósókn bátsins stýrt miðað við hæsta verð á markaði.

Það er nú nokkuð ljóst að það er nóg af fiski í sjónum hérna við ströndina því þessi mokveiði hefur verið stutt frá Sandgerði og allt innan við þrjár mílurnar.

Sævík GK hefur haldið sig við Þorlákshöfn og hefur t.d. verið við veiðar undir Krýsuvíkurbjargi og við Þjórsárósa og hefur landað alls 46 tonn í fjórum róðrum.