Vörumiðlun
Vörumiðlun

Pistlar

Marsmánuður nokkuð góður þrátt fyrir greinilega stýringu á úthaldi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. apríl 2024 kl. 06:02

Marsmánuður nokkuð góður þrátt fyrir greinilega stýringu á úthaldi

Þegar þessi pistill er skrifaður þá er gabbdagurinn mikli 1. apríl og spurning hvort eitthvað sé að marka þennan pistil. Hann gæti nú bara verið aprílgabb út í eitt. Við skulum sjá til með það, það eru í raun bara þið lesendur góðir sem þurfið að meta hvort það sem fram kemur hérna að neðan sé gabb eða ekki, þó þessi pistill sé skrifaður 1. apríl.

Alla vega er marsmánuður liðinn og þá er hægt að líta yfir hvernig bátunum gekk að veiða. Byrjum á togurunum. Það var búið að koma fram um Sturlu GK og hversu vel henni gekk í mars en báturinn endaði með 811 tonn í ellefu löndunum og mest 82 tonn í löndun. Yfir aðra togara í mars þá endaði Sturla GK í fimmta sæti yfir landið sem er feikilega gott miðað við að fullfermi hjá Sturlu GK er aðeins um 82 tonn. Til samanburðar er fullfermi 178 tonn hjá Þórunni Sveinsdóttur VE sem var aflahæst með 892 tonn í mars. Áskell ÞH var með 438 tonn í fimm og Vörður ÞH þar rétt á eftir með 434 tonn í fimm löndunum, Sóley Sigurjóns GK 236 tonn í tveimur og fór síðan norður til Siglufjarðar á rækjuveiðar og landaði þar 22 tonnum í einni löndun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjá dragnótabátunum var Sigurfari GK með 182 tonn í níu róðrum og mest 29 tonn í róðri, Siggi Bjarna GK 149 tonn í tíu og mest 23 tonn í löndun, Benni Sæm GK 127 tonn í átta og mest 20 tonn í löndun og Aðalbjörg RE 84 tonn í átta og mest 13,7 tonn í löndun.

Hjá netabátunum var Erling KE með 417 tonn í tuttugu róðrum og mest 51,5 tonn í einni löndun, Friðrik Sigurðsson ÁR 219 tonn í 22 róðrum og mest 16 tonn, Halldór Afi GK 59 tonn í tuttugu og mest 8,3 tonn í löndun. Hraunsvík GK 29 tonn í sjö róðrum og mest 8 tonn í löndun og Sunna Líf GK með 18,6 tonn í níu róðrum og mest 5,4 tonn í löndun.

Línubátarnir veiddu mjög vel í mars eins og hina mánuðina og þrír bátar frá Suðurnesjunum náðu yfir 500 tonn afla. Sighvatur GK var með 514 tonn í fjórum róðrum og mest 152 tonn í einni löndun, landað í Hafnarfirði, Valdimar GK 536 með tonn í sjö róðrum og mest 105 tonn í löndun og landaði báturinn í Þorlákshöfn, Hafnarfirði og Sandgerði, 153 tonnum var landað í Sandgerði.

Hjá minni bátunum var Auður Vésteins SU með 194 tonn í nítján róðrum, Óli á Stað GK 182 tonn í fimmtán, Gísli Súrsson GK 176 tonn í þrettán, Kristján HF 169 tonn í tólf, öllu landað í Sandgerði. Hópsnes GK var með 112 tonn í fjórtán róðrum, Margrét GK 111 tonn í aðeins átta róðrum, Sævík GK 84 tonn í átta, Dúddi Gísla GK 82 tonn í fimm, Daðey GK 64 tonn í sjö, Vésteinn GK 37 tonn í fimm og Gulltoppur GK 50 tonn í tíu róðrum sem landað var á Siglufirði. Hinir bátarnir lönduðu mestöllum sínum afla í Sandgerði.

Færabátunum fjölgaði ansi mikið og var veiði þeirra mjög góð þegar bátarnir komust á sjóinn, t.d. var Sigurey ÍS með 9,3 tonn í fjórum róðrum og mest 3,4 tonn í löndun, Viktor Sig HU 4,1 tonn í fimm róðrum, að mestu ufsi, Huld SH 28 tonn í tólf róðrum og mest 3,3 tonn í löndun og báturinn endaði sem aflahæsti smábátur landsins í mars undir átta tonnum að stærð en öllum þessum afla var landað í Sandgerði. Fagravík GK 29 tonn í tíu róðrum og mest 3,1 tonn í löndun, Sella GK 8,7 tonn í átta róðrum, Líf GK 8,4 tonn í ellefu, Þórdís GK 7,6 tonn í fimm, Dímon GK 4,4 tonn í fjórum, Sæfari GK 4,2 tonn í fjórum og Agla ÍS 3,6 tonn í fimm róðrum.

Svona heilt yfir þá má segja að marsmánuður hafi verið nokkuð góður þó svo að greinilegt væri að stýring var á úthaldi, sérstaklega hjá línubátunum enda réru minni bátarnir frekar fáa róðra miðað við febrúar og janúar – en það kom ekki að sök því mokveiði var hjá þeim og sést það best á Margréti GK sem aðeins fór í átta róðra en náði samt 111 tonnum, það gerir um 13,8 tonn í róðri að meðaltali.