Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Atlantsolía lækkar birtustig á verðskilti við Hólagötu eftir ábendingar íbúa
Föstudagur 24. október 2025 kl. 10:44

Atlantsolía lækkar birtustig á verðskilti við Hólagötu eftir ábendingar íbúa

Atlantsolía hefur lækkað birtustig á verðskilti sínu við bensínstöð fyrirtækisins á Hólagötu 20 í Reykjanesbæ eftir ábendingar frá íbúum í nágrenninu um ljósmengun. Að sögn fyrirtækisins var brugðist strax við og stillingar lagaðar í samræmi við reglur sveitarfélagsins.

„Við tökum ábendingum íbúa mjög alvarlega og brugðumst við um leið og við fengum vitneskju um að birtustigið ylli truflunum í nágrenninu og lækkuðum þá strax birtustig skiltisins. Við viljum auðvitað tryggja að skiltið valdi sem minnstum óþægindum eða truflunum í nærumhverfinu,“ segir Rakel Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu.

Verðskiltið var sett upp í sumar af sérhæfðu verktakafyrirtæki. Samkvæmt Atlantsolíu reyndist birtustig þess stillt hærra en átti við, en það hafi fyrst komið í ljós þegar skammdegið færðist yfir og kvartanir bárust.

Fyrirtækið bendir á að olíufélögum sé samkvæmt lögum skylt að birta verð á eldsneyti á sýnilegum skiltum við stöðvar sínar og að Atlantsolía leggi áherslu á að uppfylla þau skilyrði með ábyrgum hætti. Jafnframt sé markmiðið að starfsemin hafi sem minnst áhrif á nánasta umhverfi.

„Atlantsolía leggur áherslu á góða samvinnu við Reykjanesbæ og íbúa svæðisins og vill tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra sem búa í nágrenninu,“ segir Rakel.

Dubliner
Dubliner