Landsréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms vegna eignarnáms á línuleið Suðurnesjalínu 2
Landsréttur hafnaði í gær kröfu nokkurra landeigenda um að ógilda ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra frá 21. júní 2024 um heimild Landsnets til eignarnáms vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í Sveitarfélaginu Vogum.
Þar með staðfestir Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu um að fullnægjandi lagaheimild hafi verið til staðar og fylgt hafi verið lögbundinni málsmeðferð við undirbúning og framkvæmd eignarnáms, segir í tilkynningu frá Landsneti.
„Þessi niðurstaða er mikilvægt skref í að ljúka framkvæmdinni. Til stóð að taka Suðurnesjalínu 2 í rekstur í haust en það hefur tafist vegna dómsmála,” segir Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets.
Mál varðandi framkvæmdaleyfi Voga er til meðferðar í Hæstarétti, án viðkomu í Landsrétti, en Landsnet og Sveitarfélagið Vogar voru sýknuð af kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins í Héraðsdómi Reykjaness.
Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 eru langt komnar en einungis á eftir að framkvæma á þeim jörðum sem tengjast eignarnáminu. Áætlaður verktími þar er um 4 mánuðir.






