Pistlar

Löng útgerðarsaga Grímsness GK á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. maí 2023 kl. 06:04

Löng útgerðarsaga Grímsness GK á Suðurnesjum

Það er nú ekki hægt að segja að þaðan sem ég skrifa þennan pistil sé hægt að finna tengingu við sjávarútveginn á Suðurnesjum því þessi pistill skrifast frá Hótel Núpi skammt frá fjallinu Lómagnúpi við Skeiðarársand.

Kannski að eina tenginginn væri sú að hérna úti við í sjónum eru fiskimið sem sumir netabátanna frá Sandgerði og Grindavík voru á veiðum og voru þá að landa á Hornafirði. Til að mynda Stafnes KE og Bergur Vigfús GK.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er dapurlegt að vita til þess að frá því að síðasti pistill kom þá hafa orðið tveir bátsbrunar. Einn í Njarðvík og annar í Sandgerði. Bátinn sem brann í Sandgerði mun verða fjallað aðeins um í næsta pistli.

Skipið sem brann í Njarðvík hét Grímsnes GK, því miður varð mannslát í þeim bruna og vil ég votta aðstandendum þess látna samúð mína.

Grímsnes GK var í eigu útgerðar sem ber sama nafn en Hólmgrímur Sigvaldason á útgerðina, ég hef oft minnst á hann í þessum pistlum mínum.

Grímsnes GK á sér mjög langa sögu í útgerð á Suðurnesjum. Báturinn var smíðaður í Noregi árið 1963 og kom fyrst til Stöðvarfjarðar og fékk þar nafnið Heimir SU 100. Árið 1967 var báturinn seldur til Hnífsdals og fékk þar nafnið Mímir ÍS 30. Báturinn fór aftur austur árið 1974 til Eskifjarðar og fékk þá nafnið Hafalda SU 155.

Árið 1978 kom báturinn til Suðurnesja og var seldur Ásgeir hf í Garði og fékk þá nafnið Ásgeir Magnússon GK 60. Hann bar það nafn til 1981 þegar hann var seldur til Keflavíkur og fékk þá nafnið Árni Geir KE 74. Árið 1986 var báturinn seldur til Happasæls sf. og fékk þá nafnið Happasæll KE 94. Með þessu Happasælsnafni var Guðmundur Rúnar Hallgrímsson eigandi og skipstjóri flest árin og var báturinn með þessu nafni til 2001 þegar að nýr bátur kom í staðinn fyrir Happasæl KE. Nýi Happasæll KE sem kom árið 2001, heitir í dag Sigurfari GK. Frá því að Happasæll KE sknr 89 var seldur 2001 hét hann Mímir ÍS og Sædís ÍS þangað til að Hólmgrímur keypti bátinn árið 2005, og hefur gert bátinn út síðan þá, eða í um átján ár.

Saga bátsins í útgerð frá Suðurnesjunum er því ansi löng eða samtals fjörutíu og fimm ár og þar af hét hann Happasæll KE í 15 ár og Grímsnes GK í 18 ár.

Alla tíð var vel hugsað um bátinn og æði margir Suðurnesjamenn eiga minningar um hann því mjög margir hafa verið á bátnum og í samtölum mínum við sem hafa verið á bátnum þá skín það í gegn að menn tala mjög vel um hann, hversu góður bátur í sjó hann var og það fiskaðast alltaf vel á hann.

Síðustu átta ár þá hefur Sigvaldi, sonur Hólmgríms, verið skipstjóri á Grímsnesi GK og hann kallaði bátinn „Grímsa“.

Báturinn hefur ekki aðeins verið á fiskveiðum því hann spilar smá hlutverk í þáttunum Ice Cold Catch, sem fylgist með línuveiðum á Páli Jónssyni GK og Valdimar GK. Þegar verið var að mynda bátana á veiðum úti á sjó, var Grímsnes GK leigður og voru þá kvikmyndatökumenn um borð í bátum og mynduðu hina tvo bátana á veiðum.

Ég hef síðan 2019 verið með YouTube-rás sem heitir Gísli R, Iceland og fyrsta myndbandið sem birist á þeirri rás var einmitt með þessum báti sem er verið að skrifa um hérna, Grímsnes GK sem þá var að koma til hafnar í Njarðvík.

Hólmgrímur hefur undanfarin 30 ár verið ansi duglegur í útgerð á stórum netabátum, en þessi bruni á bátnum og mannslátið er gríðarlegt högg og áfall fyrir þá feðga.

Hvort annar bátur kom í staðinn fyrir þennan fengsæla og farsæla bát verður tíminn að leiða í ljós.