Pistlar

Loksins landað aftur í Grindavík
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 1. mars 2024 kl. 06:05

Loksins landað aftur í Grindavík

Núna árið 2024 er hlaupár og það þýðir að fólk sem fæddist 29. febrúar getur haldið upp á afmælið sitt – en það getur gert það á fjögurra ára fresti.

Þetta þýðir líka að febrúar hefur einn aukadag varðandi sjósókn en þessi mánuður er búinn að vera mjög góður aflalega séð og reyndar skrítinn, sérstaklega út af því sem er að gerast í Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jarðhræringarnar sem eru í gangi við Svartsengi og vísindamenn segja að það geti gosið aftur – og svo líklega aftur og aftur. Minna um margt á blöðru sem tæmist en fyllist síðan aftur og tæmist.

Núna í vikunni var fagnað í Grindavík þegar bátar gátu loksins landað þar aftur en Óli á Stað GK, Vésteinn GK og Valdimar GK komu allir til Grindavíkur með afla.

Óli á Stað GK kom með 13,2 tonn sem voru veidd utan við Krýsuvíkurbjarg, Vésteinn GK lenti í mokveiði og kom með 26,3 tonn en báturinn þurfti að fara tvær ferðir til að ná í þennan afla.

Reyndar núna þegar að þessi pistill er skrifaður þá er búið að færa Véstein GK úr Grindavík og yfir í Sandgerði, svo sem skiljanlegt því vísindamenn segja að stutt sé í næsta gos.

Enn og aftur þurftu bæði Daðey GK og Geirfugl GK að fara í tvær ferðir til þess að ná aflanum sínum. Geirfugl GK hefur landað um 30 tonnum á tveimur dögum en þurfti að tvílanda báða dagana. Daðey GK er búin að mokveiða og hefur landað 94,3 tonnum á fjórum dögum en á bak við þessa fjóra daga eru alls níu landanir. Fyrst þurfti Daðey GK að landa þrisvar saman daginn og hina þrjá daganna þurfti Daðey GK að tvílanda.

Margrét GK hefur líka mokveitt en hefur ekki þurft að tvílanda, hefur landað 102 tonn í sex róðrum og það gerir um 17 tonn í róðri.

Kristján HF kom að austan og fór til Sandgerðis, þar er báturinn að reyna að eltast við ýsuna og hefur landað tvisvar þar, alls um 40 tonnum og þar af fékk báturinn 22,1 tonn í einni löndun sem reiknast um 560 kíló á bala. Þetta er nú bara enn eitt dæmið um þá mokveiði sem er búin að vera núna frá áramótum.

Færabátunum hefur fjölgað töluvert þó svo að flestir bátanna séu að eltast við ufsann. Þó er Huld SH kominn á veiðar en þessi bátur var í Sandgerði í mars árið 2023, mokveiddi rétt fyrir utan Sandgerði og kláraði þorskkvótann sinn þann mánuð með því að landa um 32 tonnum. Verður fróðlegt að sjá núna í mars hvort Huld SH muni aftur mokveiða eins og báturinn gerði fyrir ári síðan.

Annars svona í lokin langar mig að athuga hvort einhver lesandi þessara pistla lumi á bátamyndum einhverstaðar í safni sínu sem ég gæti fengið að komast í. Veit að nokkrir hafa í gegnum tíðina myndað duglega báta á Suðurnesjunum og ég veit um einn sem hefur verið hvað atkvæðamestur.

Ef einhver lumar á gömlum bátamyndum frá Suðurnesjum þá gætuð þið sent í mér í gegnum netfangið [email protected].