Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Lokaorð um orð
Laugardagur 9. janúar 2021 kl. 06:37

Lokaorð um orð

Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að kryfja þetta blessaða ár 2020 sem við erum sem betur fer búin að kveðja. En mig langar samt, áður en ég lít fram á veginn til hvers vænta má af nýbyrjuðu ári, að fara aðeins yfir liðið ár út frá nokkrum orðum sem mér finnst hafa einkennt það. Þá á ég ekki endilega við orð eins og „fordæmalaust“, „smitrakning“, „sóttkví“ og „rakningarteymi“ sem þó eru orð sem við kynntumst og notuðum öll í miklu óhófi á liðnu ári. Ég á meira við þau orð sem mér finnast hafa einkennt líf okkar og samfélagið allt og sitja eftir í mínu hugskoti sem afl til jákvæðra breytinga í samfélaginu.

Ef ég ætti að velja fimm orð til að lýsa árinu 2020 yrðu þessi fyrir valinu: Samstaða, æðruleysi, útsjónarsemi, þrautsegja, og nýjasta uppáhaldsorðið mitt, trufltækni (disruptive innovation). Þetta er árið sem Íslendingar stóðu saman og gengu í takt að sameiginlegu markmiði. Við lærðum að bíða í röð og flýta okkur hægt og þróuðum með okkur það æðruleysi að sætta okkur við að sumum hlutum fáum við ekki breytt. Með útsjónarsemi náðum við að halda áfram að gera flest það sem við gerum venjulega, bara á annan hátt. Þrautsegja atvinnulífsins og sjálfsbjargarviðleitni leiddi til þess að veitingastaðir fóru að senda okkur matinn heim, kvikmyndahátíðir færðust heim í stofu og jólainnkaupin fóru nánast eingöngu fram í netverslun. Við hlupum yfir nokkur ár í tækniframförum og með „trufltækni“ varð skyndilega leyfilegt að gera hlutina með öðrum hætti en áður. Það sem áður þótti ómögulegt er núna hversdagslegt – fjarfundir, heimavinna, fjarnám, heimastreymistónleikar og rafrænar hamingjustundir – allt er þetta komið til að vera með einhverjum hætti, þó kannski vonandi ekki í eins miklu magni.

Við lærðum held ég flest öll heilan helling á þessu skrýtna ári. Við fjölskyldan áttum margar ómetanlegar gæðastundir hér heima og við komumst að því að skrýtin jól í einangrun geta líka verið notaleg. Heimurinn hefur að vissu leyti líka minnkað, þrátt fyrir færri ferðalög og hef ég sjaldan verið í jafngóðu sambandi við stóra vinahópinn minn frá námsárunum í Bandaríkjunum og núna þar sem við „hittumst“ mjög reglulega á Zoom.

En þá að 2021, hvernig ætli það verði? Í þessum óvísindalega spádómi mínum ætla ég að gefa mér þá forsendu að bólusetning muni almennt ganga vel, bæði hér og annars staðar, og að á næstu vikum og mánuðum muni skorðum verða aflétt jafnt og þétt. Að því gefnu horfi ég bjartsýn fram á veginn og held að orð þessa nýbyrjaða árs gætu t.d. orðið: Uppskera, framfarir, tilhlökkun, frelsi og ábyrgð. Á þessu ári munum við sjá afraksturinn af þrautseigjunni og útsjónarseminni og uppskera kröftugt atvinnulíf sem nýtir nýjar lausnir og aðferðir til framfara. Það er eftirvænting í okkur öllum og tilhlökkun eftir því að geta komið saman á ný, knúsast og átt eðlileg samskipti aftur við fólkið okkar. Við þráum frelsi til að ferðast, fara í leikhús og á fótboltaleiki, og gera allt það sem við höfum þurft að láta á móti okkur. Ég trúi því líka að við séum búin að átta okkur á því að til þess að svo megi verða þurfum við öll að sýna ábyrgð og halda áfram að standa saman.

Ég held að þetta verði bara allt í lagi – gleðilegt ár kæru lesendur!

Ragnheiður Elín Árnadóttir.