Pistlar

Loðnuveiðin hefur engin áhrif á Suðurnesin
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 8. mars 2024 kl. 06:04

Loðnuveiðin hefur engin áhrif á Suðurnesin

Það er ekkert lát á mokveiðinni sem var hjá bátunum í febrúar. Þessi mokveiði hefur reyndar það vandamál með sér að núna er farið að stýra bátunum gagnvart veiðum, enda er kvótinn mjög fljótur að klárast í svona mikilli mokveiði.

Annars hefur færabátunum fjölgað mjög mikið og má segja að bátarnir skiptist í tvo hópa. Fyrri hópurinn er bátarnir sem eru að veiða ufsa, þeir bátar eru flestir kvótaliltir, og síðan eru það bátarnir sem eru með kvóta og þeir eru að veiða þorsk. Einn af þeim er færabáturinn Huld SH og já, eins og kannski við var að búast er þessi litli bátur nú þegar búinn að tvílanda einn daginn og var samtals með um 5,7 tonn sem fékkst á einum degi en í tveimur löndunum. Huld SH er mjög lítill bátur og fullfermi hjá bátnum er ekki nema tæp þrjú tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Annars ætla ég aðeins að fara með ykkur lesendur góðir aftur í tímann, ég geri það af og til í þessum pistlum mínum. Núna er nokkurn veginn orðið ljóst að engin loðnuveiði muni verða þessa vertíð árið 2024 því engin loðna hefur fundist í veiðanlegu magni. 

Eins og ég hef áður skrifað um hérna þá hefur loðnuveiði engin áhrif á Suðurnesin því loðna hefur ekki komið á hafnir á Suðurnesjum í ansi mörg ár.

Aftur á móti fer ég með ykkur aftur til ársins 2000 og við skoðum febrúar og mars árið 2000, þá var mjög mikið um að vera í höfnunum í Grindavík, Sandgerði og Helguvík. Samtals komu á land í þessum þremur höfnum 108 þúsund tonn af loðnu.

Í Sandgerði komu alls 13.869, eða tæp 14 þúsund tonn, og voru þrír bátar sem lönduðu þessum afla. Bergur Vigfús GK (áður Keflvíkingur KE) sem var með 1.337 tonn í þremur túrum, Súlan EA með 4.712 tonn í sex og Birtingur NK með 7.820 tonn í tólf löndunum.

Mikið var um að vera í Grindavík því þar komu á land 45.269 tonn af loðnu, eða rúm 45 þúsund tonn. Þrír bátar lönduðu þar yfir 10 þúsund tonnum af loðnu, hæstur var Sunnutindur SU með 10.906 tonn í fimmtán túrum, þessi bátur hét áður Víkurberg GK. Þar á eftir kom Oddeyrin EA með 10.739 tonn í sextán túrum, þessi bátur hét áður Albert GK og síðan var það Seley SU með 10.030 tonn í fimmtán en þessi bátur var lengi vel togarinn Sölvi Bjarnason BA frá Bíldudal. 

Aðrir bátar í Grindavík, voru til dæmis Þorsteinn EA með 6.987 tonn í átta túrum, Háberg GK með 1.971 tonn í fjórum, Hoffell SU 1.086 tonn í einum, Grindvíkingur GK með 478 tonn í tveimur, Arnþór EA 544 tonn í einum, Neptúnus ÞH með 1.952 tonn í tveimur og Sigurður Jakobsson ÞH með 576 tonn í einum túr.

Helguvík var stærsta loðnulöndunarhöfnin þessa mánuði árið 2001. Þar komu á land samtals 48.572 tonn, eða tæp 49 þúsund tonn af loðnu. Þar var Örn KE aflahæstur með 9.153 tonn í ellefu löndunum, Grindvíkingur GK með 7.599 tonn í átta, Hákon ÞH með 5.617 tonn í sjö og Súlan EA 5.129 tonn í sex löndunum. Bjarni Ólafsson AK 3.331 tonn í þremur löndunum, Ísleifur VE með 3.081 tonn í fjórum, Gullberg VE 2.405 tonn í tveimur og Beitir NK 2.199 tonn í tveimur löndunum. Þórður Jónasson EA með 2.032 tonn í fjórum löndunum, Björg Jónsdóttir ÞH 1.836 tonn í tveimur, Sigurður Jakobsson ÞH 1.099 tonn í tveimur og Þorsteinn EA 1.039 tonn í einni löndun. Víkingur AK 946 tonn í einni löndun, Huginn VE 840 tonn í einni, Arnþór EA með 801 tonn í einni, Guðmundur Ólafur ÓF 746 tonn í einni og Arnarnúpur ÞH 719 tonn í einni löndun. 

Eins og sést þá var mjög mikið um að vera í Helguvík því alls voru bátarnir sem lönduðu þar sautján talsins og fjöldi landana var samtals 57. Þetta þýðir að það var svo til bátur að landa loðnu hvern einasta dag í febrúar og mars árið 2000.

Sem sé mikið líf og fjör sem var árið 2000 en núna árið 2024 er lífið að aukast í Sandgerði.