Reykjanesbær 3-6 sept
Reykjanesbær 3-6 sept

Pistlar

Ljósin skína skær
Föstudagur 5. september 2025 kl. 06:25

Ljósin skína skær

Besta helgi ársins á Suðurnesjum er gengin í garð, sjálf Ljósanóttin. Bærinn verður eins líflegur og best verður á kosið, listamenn á hverju horni og viðburðirnir óteljandi.  Það verða líka ákveðin kaflaskil við þessa flottu bæjarhátíð okkar. Þegar ljósin á berginu kvikna er eins og kveikt sé á haustinu og systurnar regla og rútína taka við.

Sjálf á ég margar góðar minningar af liðnum Ljósanóttum. Ógleymanlegt var þegar við marseruðum ásamt öllum grunnskólabörnum Reykjanesbæjar í Myllubakkaskóla og sungum „Velkomin á Ljósanótt“ og slepptum hundruðum blaðra út í loftið.

Ákveðinn atburður er mér þó alltaf minnistæður frá unglingsárunum. Rétt eftir flugeldasýningu tíðkaðist hér áður fyrr að unglingarnir yrðu eftir á gamla Ný-Ungs planinu þegar þreyttir foreldrar og sofandi börn fóru að týnast heim. Við vinkonurnar, þá rétt nýfermdar, völsuðum um planið innan um aðra táninga sem höfðu enn ekki aldur til þess að komast inn á skemmtistaðina. Flestir ýmist með bakkus og spírítus í bakpokanum eða landa og salem. Þetta þótti okkur æðislega spennandi eða allt þar til mæður okkar fóru að hringja.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

„HA? Mamma ég heyri ekkert í þér en ég er alveg að koma heim. Má ég ekki bara gista hjá…Mamma hennar leyfir sko! Æji mamma þær mega allar vera lengur úti.“ Allt var reynt en móðir mín hélt nú ekki. Fyrsta alvöru útihátíðin og ég þurfti endilega að fara heim. Ég ákvað því að vera nokkuð brött og hætta bara að svara símanum. Ein klukkustund í viðbót gat nú ekki sakað.

Eftir um það bil 20 mínútur af ósvöruðum símtölum lýsist allt planið skyndilega upp og hávær kliður ungmennanna dvínar svo um munar. Inn í miðja þvöguna rennir svartur Wolkswagen Polo. Bíllinn hennar mömmu. Móðir mín allt annað en kát undir stýri. Heim skyldi unga daman og ekki mínútu seinna en NÚNA. Ég staulaðist skömmustuleg að bílnum, settist inn og hallaði sætinu eins langt aftur og ég gat.

Á þeim tíma fannst mér þetta uppátæki mömmu hræðilega skömmustulegt. Ég var viss um að sagan myndi örugglega enda framan á Víkurfréttum, af Polo-inum á miðju planinu og óþekkum unglingi sem ætlaði ekki heim. Svo var ekki… En í staðinn bæti ég henni við núna, full þakklætis fyrir mömmu sem hafði mitt öryggi ávallt í fyrirrúmi.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25