Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Sjómennskan að komast á fullan skrið eftir sumarfrí
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 15. ágúst 2025 kl. 06:10

Sjómennskan að komast á fullan skrið eftir sumarfrí

Yfir sumartímann hef ég verið mikið á ferðalagi um landið, og þegar þessi pistill er skrifaður er ég staddur í Hveragerði. Tengslin við sjómennsku á Suðurnesjum eru kannski ekki augljós hér, nema að minnast á eitt gamalt samband: þegar ég var á sjó á Þór Péturssyni GK frá Sandgerði var stýrimaðurinn einmitt frá Hveragerði.
Nesfiskur setur fleiri báta í gang

Sumarfríi er nú lokið hjá nokkrum bátum. Nesfiskur hefur sent tvo báta af stað eftir langt hlé. Dragnótabáturinn Sigurfari GK hefur landað um 11 tonnum í tveimur róðrum, og togarinn Pálína Þórunn GK er við veiðar utan við Sandgerði þegar þetta er skrifað.

Aðeins einn bátur frá Nesfiski, línubáturinn Margrét GK, var á veiðum í júlí og heldur hann áfram nú í ágúst. Í júlí var afli hans 161 tonn í 17 róðrum, en nú í ágúst hefur veiðin farið rólega af stað með 16,5 tonn í fjórum róðrum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Dragnótabáturinn Maggý VE hefur einnig hafið veiðar, eftir að hafa legið í höfn í Sandgerði síðan í júní.

Vísir að hefja vinnslu á ný

Í Grindavík er vinnslan hjá Vísi að komast í gang aftur eftir sumarfrí. Stóru línubátarnir hafa þó ekki hafið veiðar. Jóhanna Gísladóttir GK kom nýlega með 46 tonn til Grundarfjarðar, sem síðan var flutt til Grindavíkur.

Á hinn bóginn eru allir bátar Einhamars í Grindavík komnir á sjó. Afli þeirra hefur verið góður:

Auður Vésteins GK – 81 tonn í 6 róðrum, mest 17,7 tonn í einu. Gísli Súrsson GK – 50 tonn í 4 róðrum. Vésteinn GK – 65 tonn í 5 róðrum.

Nýr bátur hjá Stakkavík

Stakkavík hefur haft einn bát á veiðum, nýjan í þeirra eigu, Hemmi á Stað GK, áður þekktur sem Daðey GK í eigu Vísis. Báturinn hefur verið við veiðar á Skagaströnd og er nú kominn með 15,8 tonn í þremur róðrum í ágúst.

Allur fiskur af bátnum er fluttur til Sandgerðis þar sem Stakkavík vinnur aflann í húsnæði Nýfisks. Húsnæði félagsins í Grindavík var dæmt ónýtt eftir náttúruhamfarirnar þar. Sömuleiðis þá er línan beitt og stokkuð upp í Sandgerði.

Góð veiði á ufsanum – kvóti ódýr í leigu

Töluverður fjöldi handfærabáta hefur verið á veiðum að undanförnu, sérstaklega á ufsanum. Veiðin hefur verið góð, enda stutt í nýtt kvótaár. Um 20 þúsund tonn af ufsakvóta eru enn óveidd, og leiguverð hefur því fallið í um 10 krónur á kíló. Verð á mörkuðum er á bilinu 120–260 krónur, eftir stærð fisksins.

Flestir bátarnir í Sandgerði hafa verið við veiðar við Eldey og á Boðanum suður af Eldey, um 50 sjómílur frá Sandgerði. Séra Árna GK hefur gengið vel með 9,5 tonn í tveimur róðrum. Þar hafa Fúsi (eigandi Séra Árna GK) og Þórólfur (eigandi Hafdals GK) róið saman á bátnum.

Aflahæstu færabátarnir um helgina

Margir færabátar réru um síðustu helgi og gengu veiðar vel. Þeir komu margir í land seint á sunnudagskvöldi og lönduðu snemma á mánudagsmorgni. Nokkur dæmi um aflann:

Dóra Sæm GK – 3,1 tonn, Hawkerinn GK – 2,5 tonn, Guðrún GK – 2,5 tonn, Dímon GK – 1,3 tonn.