2000 evru drullusokkurinn
Í dag, þegar þetta er skrifað, eru akkúrat fjögur ár síðan við fjölskyldan fluttum til Parísar. Okkur hefur liðið dásamlega, allir fjölskyldumeðlimir hafa fundið fjölina sína og meira að segja Lubbi er farinn að gelta á frönsku. Við höfum búið í yndislegu hverfi þar sem öll þjónusta er í göngufjarlægð og er eins og lítill bær þar sem allir þekkja alla. Fyrirfram viðvaranir til okkar um skapstygga og lítt þjónustulundaða Parísarbúa voru því sannarlega óþarfar.
Það eru þó alltaf undantekningar og ef maður ætti að alhæfa um eina stétt þar sem bæta mætti „dassi“ í þjónustulundina þá væri það sennilega hinn dæmigerði franski iðnaðarmaður. Við höfum nokkrum sinnum á þessum fjórum árum þurft á þjónustu þeirra að halda – rafvirkja, sótara, garðyrkjumanna, pípara – og hefur það á köflum verið nokkuð skrautlegt. Þeir mæta seint og illa, og þegar þeir loksins koma, kíkja þeir í tvær mínútur á vandamálið og annað hvort segja þeir að það þurfi að skipta öllu draslinu út eða fara og mæta aftur nokkrum dögum seinna og þá aðeins meira til í að reyna að laga þetta.
En steininn tók úr í seinustu viku. Við höfum staðið í flutningum og vorum að skila af okkur gömlu íbúðinni, ganga frá og þrífa eins og lög gera ráð fyrir. Á seinustu metrunum, daginn áður en við áttum að afhenda íbúðina vill ekki betur til en að eldhúsvaskurinn stíflast, og þrátt fyrir mjög metnaðarfullar aðgerðir af hálfu eiginmannsins gekk ekkert að losa stífluna. Við fundum neyðarnúmer hjá pípara, útskýrðum að þetta væri smá krísa og að við þyrftum þjónustu NÚNA þar sem við værum að flytja. Ekki málið sögðu þeir, við mætum eftir 2 tíma - við auðvitað alsæl með þessi viðbrögð.
Það stóðst og sá fyndnasti pípulagningarmaður sem ég hef séð var mættur á tilsettum tíma. Hann stóð svo sannarlega undir nafni þar sem hann var með „plömmer“ á buxunum jafnvel áður en hann beygði sig við vaskinn. Reyndar beygði hann sig ekkert, heldur leit einungis á vaskinn og sagði að það væri augljóst hvernig það ætti að laga þetta. Félagi hans væri með græju og að hann kæmi eftir klukkutíma, djobbið tæki í mesta lagi hálftíma og málið væri dautt. Frábær lausn og 5 ára ábyrgð á öllu saman.
Svo sýndi hann mér reikninginn – það átti sum sé að kosta 2200 evrur í mesta lagi hálftíma verk að losa stíflaðan eldhúsvask, rúmlega 300 þúsund íslenskar krónur. Þegar ég leyfði mér að efast aðeins um þetta og spurði hvernig hann væri viss um að þetta væri það eina í stöðunni (ég minni á að hann hafði ekki einu sinni skrúfað frá krananum, hvað þá prófað að skrúfa eitthvað í sundur eins og ég myndi halda að gera þyrfti áður en úrskurður væri kveðinn upp), þá leit hann á mig sármóðgaður og sagði að það væri af því að hann hefðir verið í þessum bransa í 15 ár.
Við vorum í vanda – auðvitað í mikilli tímapressu – og hann vissi það. Við vorum samt ekki tilbúin í þetta, en kannski hafði hann rétt fyrir sér, kannski var þetta augljóst fyrir þjálfað auga, kannski var þetta bara svona í Frakklandi. Ég ákvað samt að hringja í franskan vin okkar, lýsti stöðunni í hvelli og spurði hvort hann teldi þetta rétt. Hans viðbrögð voru skýr: „Hentu honum út – þetta er ekki í lagi. Ég redda ykkur öðrum pípara.“ Við hentum gaurnum út og sá var ekki glaður.
Á meðan að ég var að græja nýjan pípara með vini okkar í símanum, hljóp mikill eldmóður í minn ástkæra eiginmann, sem hafði eins og ég sagði, verið búin að reyna ýmislegt til að losa stífluna. Hann, með son okkar til aðstoðar, lagði til atlögu við vaskinn sem aldrei fyrr með drullusokk að vopni. Hamaðist í nokkrar mínútur og áður en ég var búin að græja nýjan pípara heyrðist dásamlegt hljóð. Stíflan losnaði allt í einu og vaskurinn tæmdist!
Á endanum var það sem sagt sem sagt 5 evru drullusokkur sem bjargaði okkur frá 2000 evru drullusokki. Næst þegar okkur vantar pípara hringi ég bara í Lúlla vin minn pípara – það kostar aldrei 2000 evrur að fljúga honum yfir!