Pistlar

Íslenska sumarið
Föstudagur 19. júlí 2024 kl. 06:15

Íslenska sumarið

Það hefur verið spennandi bið eftir íslenska sumrinu sem veðurfræðingurinn lofaði okkar að yrði með betra móti. Við gætum setið úti í móa, notið veðursins og skemmt okkur léttklædd með vinum og kunningjum í blómanna angan. Það hafa alveg komið dagar hér og þar um landið, án gulrar veðurviðvörunar, en þetta sumar sem veðurfræðingurinn lofaði okkur hefur ekki komið – enda hefur hann nú beðist afsökunar og bíður þess, eins og tugþúsundir annarra Íslendinga, að komast úr landi í umhverfi þar sem sólin skín.

En því miður miður eigum við ekki öll þess kost að komast úr landi og verðum að þreyja þorrann þó mitt sumar sé. Stundum er sagt að það sé ekkert til sem heitir slæmt veður, þetta sé bara spurning um um að klæðast rétta fatnaðinum. Þeir sem þetta staðhæfa virðast ganga út frá því sem gefnu að Íslendingur í sumarfríi keyri um með standandi fataskápa og hafi nægan tíma til að standa í eilífum fataskiptum eftir því sem hávaðarokið, sólin, rigningin og jafnvel snjóbylirnir verða á leið þeirra. En þetta er satt að sumu leyti og undanfarið hefur hugur minn leitað meira til þeirra sem fundu upp regn- og vindheld efni en rómantískri sumarsýn veðurfræðingsins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Sir James Syme (1799–1870) var skoskur læknir sem hafði þann starfa helstan að höggva af mönnum hæla og fótleggi og þótti fær á sínu sviði, þó seinna hafi komið fram efasemdir um að hann hefði nokkru sinni lokið eiginlegu læknisprófi. Hann hafði einnig mörg önnur áhugamál og eitt var regnheld litarefni. Það var svo annar maður sem komst á snoðir um starf Symes, Charles Macintosh, sem fannst hugmyndin um vatnsheld efni frábær og sótti um einkaleyfi á henni.

Á þessum tíma var Macintosh að vinna að rannsóknum á alls konar efnum tengdum kolaiðnaði. Með þrotlausri vinnu tókst honum það sem síðan hefur reynst ómetanlegt fyrir okkur Íslendinga í sumarfíi. Hann fann upp upp regn- og vinhelt efni. Honum eigum við allt að þakka nú þegar enn ein veðuspáin með rigningu og sudda víðs vegar um landið er gefin út. Hans vegna getum notið sumarsins með sól í hjarta og þurr undir fjöldamörgum lögum af regnheldum efnum. Njótum íslenska sumarsins.