Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Hvatningin: Í ljós aðstæðna ... hugsaðu um heilsuna!
Laugardagur 21. mars 2020 kl. 09:36

Hvatningin: Í ljós aðstæðna ... hugsaðu um heilsuna!

Hversu oft hefur þú heyrt fyrri hluta þessarar fyrirsagnar síðustu daga? Aðstæður okkar ALLRA hafa breyst mikið á síðustu dögum, líklegt er að ótti, streyta, ringulreið, óvissa, pirringur, veikindi og fleiri neikvæðir þættir hafi herjað á þig undanfarið, sem gæti haft slæm áhrif á heilsu þína. En hvað getur þú gert? 

Ég hef ofurtrú á mætti hreyfingar en segja má að hreyfing sé ódýrasta lyf í heimi. Í gegnum árin hefur aðalstarf mitt verið að breiða út boðskapinn um hversu mikilvægt það er að hugsa um heilsuna. Góð heilsa er gulls ígildi en það er nokkuð ljóst að ef þú hefur einhvern tímann upplifað mikil veikindi, þá þráir þú ekkert annað en að ná góðri heilsu á ný. Til þess að heilsan sé góð þá þarf að huga að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað getur þú gert strax í dag til að bæta heilsu þína?

Ef þú ert með tvo heila fætur og líkamlega í þokkalegu ástandi þá væri gott ráð að skella sér í göngutúr.

Ef líkamleg veikindi eru að hrjá þig sem hamla hreyfingu þá er hugarþjálfun frábær valkostur. Sjáðu fyrir þér hvað þú ætlar að gera til að efla heilsuna þegar þú hefur komist yfir þessa hindrun.

Farðu í góða sturtu og gættu að hreinlæti.

Drekku vatn og borðaðu fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag.

Gefðu þér tíma til að hvílast og hlaða batteríin.

Spjallaðu við þá sem þér þykir vænt um.

Hrósaðu þér og öðrum – það er ótrúlega öflugt verkfæri.

Brostu! Eitt lítið bros hefur svo svakalega sterk áhrif.

Hvað er það sem hvetur þig áfram?
Hver er það sem hefur jákvæð áhrif á þig? 

Þegar þú kemst að því þá hvet ég þig til að sækjast í þá orku eins mikið og þú getur. Mundu að hindranir eru til að sigrast á þeim, ekki gefast upp! Það er oft þannig í lífinu að hlutirnir ganga ekki alveg upp en þá þarf maður að finna nýja leið. 

Mig langar til að vitna í setningu sem góð vinkona mín hún Birgitta Jónsdóttir Klasen, nuddari, sagði við mig þegar ég hef verið að undirbúa mig fyrir keppni: „Kiddý! Mundu að þú verður að fara á fullum krafti alla leið yfir marklínuna, ekki gefa eftir fyrr en í mark er komið!“   

Ég veit að við sem búum hér á Íslandi erum ótrúlega öflug. Höldum í þá trú að við getum orðið heilbrigðasta þjóð í heimi með samtakamætti okkar. Að lokum má ég til með að hrósa Eurovision-sigurvegara okkar, Daða Frey og Gagnamagninu, fyrir frábært lag. Lagið hvetur okkur áfram með hreyfingu og gleði. Hlustaðu vel á textann í íslensku útgáfunni, dillaðu þér með og ég veit að þú eflir heilsuna þína til muna.     

„Ef allir dansa með þá ætti þetta mögulega að sleppa.“

Heilsukveðja, Kiddý,
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur.