Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Heima að passa
Föstudagur 1. mars 2024 kl. 06:00

Heima að passa

Í heitavatnsleysinu arkaði ég af stað í borgina með börnin til þess eins að baða þau. Kvöldsund og kósý. Ævintýri fyrir börnin í Laugardalslauginni og kærkomin sturta fyrir mig. Allan eftirmiðdaginn hafði ég farið yfir það í huganum hvernig ég gæti nú sýnt fram á að við værum raunverulegir Suðurnesjabúar. Þarf ég að sýna skilríki? Þarf ég að taka með mér síðasta póst frá tryggingarfélaginu til að sýna fram á nafn og heimilisfang? Eða er nóg að ganga ákveðin til verks og segjast vera af gosskaganum?

Svo að enginn færi nú að efast klæddi ég börnin mín í Njarðvíkur stuttbuxur og Keflavíkur peysu. Þetta færi ekkert á milli mála. Verst var að það voru -2 gráður úti en maður þarf nú einu sinni að herða þessi börn fyrir framtíðar heitavatnsleysi. Ég safnaði kjarki á bílastæðinu við laugina og gekk inn með börnin. Ég þurfti svo sem aldrei að gefa upp neinar upplýsingar því þegar ég kom að afgreiðsluborðinu horfir starfsmaður sorgaraugum á okkur Njarðvíkingana, hallar höfðinu örlítið til hliðar og segir mildum rómi: Æj æj eruð þið af Suðurnesjunum? Náið ykkur bara í bönd á borðinu… þessi gulu bönd eru fyrir ykkur. Það vantaði bara að fiðlukvartettinn úr Titanic stæði í móttökunni til að fullkomna þetta atriði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar í laugina var komið eftir langt stopp undir heitri sturtu, svona til að ná mesta hrollinum úr okkur, hoppuðum við kát ofan í fyrsta pottinn. Mér var litið í kringum mig. Meira en helmingur sundlaugagesta var af Suðurnesjum. Konan á kassanum í Nettó, gamli sundkennarinn minn, hjúkrunarfræðingur af bráðamóttökunni, einn úr Ríkinu og annar úr bæjarstjórn. Einmitt hugsaði ég. Heitavatnsleysið spyr víst ekki um aldur né fyrri störf. Innst í pottinum sat svo gamall skólafélagi. Ég hafði ekki hitt hann síðan í grunnskóla þó svo að við byggjum í sama bæjarfélaginu. En nú var hann hér í Laugardalslauginni.

Í léttu spjalli segir hann mér sögu af kunningja sínum úr Reykjavík sem hefði tekið eftir ómældri aukningu „Keflvíkinga“ í laugum höfuðborgarsvæðisins enda var sá fastagestur þar. Sá hafði getað greint muninn á Suðurnesjabúum og Reykvíkingum eingöngu út frá háttarlagi og talsmáta. Já, hugsaði ég, ég vissi að það væri annar bragur yfir okkur en ekki svo mikill að tekið væri eftir. Ætli það sé samt ekki rétt hjá honum. Við erum öðruvísi en aðrir. Skemmtilega öðruvísi. Því næst snýr hann sér að börnunum mínum og spyr: „Hvar er pabbi? Er hann ekki með ykkur?“. Dóttir mín svarar ákveðin: „Nei, hann er heima að passa“. Skólafélaginn lítur á mig eitt spurningamerki og segir: „Ég vissi ekki að þú ættir fleiri börn“. „Nei“ svarar dóttir mín áður en ég næ að koma upp orði, „hann er heima að passa hitaveitugrindina“.