SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Pistlar

Heilsa kvenna
Laugardagur 30. október 2021 kl. 07:33

Heilsa kvenna

Í tilefni af bleikum október er vert að vekja athygli á heilsu kvenna en á hverju ári í október er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins, Bleika slaufan, tileinkað baráttunni við krabbameini hjá konum. Lýðheilsuvísar frá Embætti landlæknis sýna að þátttaka kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hefur verið minni á Suðurnesjum í samanburði við önnur heilbrigðisumdæmi. Það er ljóst að úr þessu þarf að bæta og eru konur á Suðurnesjum því hvattar til þess að fara reglulega í skimun til þess að láta fylgjast betur með heilsufari sínu. Ljósmæður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sjá nú um skimun fyrir leghálskrabbameini og hægt er að panta tíma með því að hringja í afgreiðslu HSS og á heilsuvera.is. Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer hins vegar fram á höfuðborgarsvæðinu og eru konur hvattar til þess að bóka tíma þegar þær fá boð í slíka skimum. 

Samkvæmt skýrslu um stefnu Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilsu kvenna þá geta áhættuþættir eins og reykingar, óheilsusamlegt mataræði, hreyfingarleysi og misnotkun áfengis, aukið hættuna á þróun langvinnra sjúkdóma fyrr á ævinni s.s. sykursýki, háþrýstingi og offitu. Meira en 50% kvenna í Evrópu eru í yfirþyngd og hafa ungar konur minnkað hreyfingu og í mörgum löndum í Evrópu eru þær að ná körlum í notkun tóbaks og áfengis. Hjarta- og æðasjúkdómar eru áfram stór hluti af heildar sjúkdómsbyrði kvenna og tíðni andlegrar vanheilsu hefur aukist á öllum svæðum í Evrópu þá sérstaklega meðal ungra kvenna.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Það er mikilvægt fyrir okkur konur að huga að heilsu og vellíðan okkar. Við þurfum að setja heilsuna í forgang og gera breytingar á lífsstíl okkar ef þess er þörf. Breyting til batnaðar á einstökum þáttum eins og að velja heilsusamlegt mataræði, stunda reglulega hreyfingu og passa upp á svefn og streitu eru grunnstoðir góðrar heilsu. Þessir þættir geta dregið úr áhættu á langvinnum sjúkdómum, ásamt því að stuðla að betra jafnvægi bæði andlega og líkamlega. 

Ásdís Ragna Einarsdóttir,

verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ