Krefst fullrar vetrarþjónustu á Nesvegi og flýtingar hafnarframkvæmda
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á Vegagerðina að setja Nesveg strax í fulla vetrarþjónustu og tryggja að vegurinn þoli þann umferðarþunga sem fyrirsjáanleg atvinnuuppbygging á Reykjanesi mun kalla á. Þetta kom fram í bókun atvinnu- og hafnarráðs sem Alexander Ragnarsson lagði fram á fundi bæjarstjórnar 16. desember og tók bæjarstjórn undir í heild sinni.
Í bókuninni er bent á að atvinnulíf byggi á greiðum og öruggum samgöngum og að stór fjárfesting í nýjum atvinnutækifærum sé nú í gangi á Reykjanesi, þar sem unnið sé að stórauknum framleiðsluiðnaði sem krefjist mikilla þungaflutninga. Nesvegurinn tengi vaxandi atvinnustarfsemi á Reykjanesi við Hafnaveg og þaðan inn í bæjarfélagið, en fyrirséð sé að vegurinn muni ekki bera verulega aukinn umferðarþunga nema ráðist verði í framkvæmdir og uppbyggingu.
Einnig er Nesvegur sagður mikilvæg tenging við Grindavík og Suðurstrandarveg, bæði sem öxull atvinnuuppbyggingar og ferðaþjónustu og ekki síst sem almannavarnainnviður fyrir íbúa Reykjaness. Vetrarþjónusta á veginum sé óásættanleg þar sem hann sé takmarkað þjónustaður þrjá daga í viku þrátt fyrir starfsemi á svæðinu alla daga ársins.





