Ljósálfar lýsa Strandleiðina upp á Kamb
Ljósálfar lýsa nú upp gönguleiðina upp Kamb í Innri Njarðvík - „fjall“ Reykjanesbæjar. Fyrir Ljósanótt var lokið við uppsetningu um sextíu Ljósálfa á strandleiðinni frá smábátahöfninni í Keflavík inn í Njarðvík og nú hafa fleiri bæst við en alls hafa um hundrað Ljósálfar verið settir upp á strandleiðinni.
Að sögn Arons H. Steinssonar veitustjóra hjá Umhverfis- og framkvæmdasviði Reykjanesbæjar hefur verið ákveðið að halda áfram með verkefnið; lýsingu strandleiðarinnar, og verða 70-80 Ljósálfar settir upp á leiðinni í Innri Njarðvík settir upp á árinu 2026. „Ljósálfar sem fara í þessa uppbyggingu bæta upplifun, ljósvist og öryggi íbúa við heilsustíga í sveitarfélaginu,“ segir Aron.
Óskar Húnfjörð hjá Íslandshúsum sem framleiða Ljósálfinn, segir að gerð hvers Ljóálfs sé nokkuð tímafrek og taki um það bil heilan dag að gera hvern Ljósálf fyrir utan uppsetningu.
Þegar hugmyndin um Ljósálf kom upp var að sögn Óskars hugsað til notagildis og langtíma endingu við hönnun hans. „Hann er 60 sm. á hæð og er gerður úr ofursteypu eða hertri steypu sem er hrærð með sér völdu sementi. Hún er fjórum sinnum sterkari en hefðbundin sökkulsteypa. Við fluttum inn sérstaka steypuhrærivél til verkefnisins og hönnuðum og útbjuggum líka sér mót fyrir hann. Lýsingin er auðvitað aðalatriðið en ekki síður að það kæmi lítil ljósmengun frá honum en Ljósálfurinn beinir ljósinu niður á stíginn og svo er gat í gegnum hann svo það kemur ljósskíma frá honum að aftan. Hann er ótrúlega sterkbyggður og frágangurinn á lýsingunni er líka þannig að það eru minni líkur á því að hún geti verið skemmd. Stólpinn kemur tilbúinn frá okkur með innbyggðum tengikassa og LED ljósabúaði sem er hannaður í samstarfi við Hildiberg ljósahönnun. Síðast en ekki síst er svo merki bæjarfélagsins framan á honum sem sést vel í lýsingunni í myrkri. Þessi framkvæmd er skemmtilegt dæmi um góða samvinnu við viðskiptavininn sem við eigum fleiri dæmi um,“ segir
Óskar en þegar Reykjanesbær sýndi Ljósálfinum áhuga var haldið áfram með þróun hans og sérstaklega með það í huga að þola og geta staðið af sér veðurálag við Strandleiðina í Reykjanesbæ.


Óskar hjá Íslandshúsum og Aron hjá Reykjanesbæ á Kambi.







