Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Hausinn í leiknum
Föstudagur 22. nóvember 2024 kl. 06:14

Hausinn í leiknum

„Afi, hafðu hausinn í leiknum,“ sagði dóttursonur minn alvarlega við mig, strangur og þungur á svip, nýlega þegar við vorum að spila golf saman. Honum líkaði ekki hvað ég var kærulaus í púttunum.

„Það eru púttinn sem skipta máli, ef þú ætlar að ná árangri í golfi,“ bætti hann svo við, umhyggjusamur fyrir afa sínum sem var að bíða afhroð í viðureigninni. Löngu höggin voru samt fín hjá mér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Datt þetta í hug þegar ég var að skrolla á netinu og fylgjast með kosningabaráttunni. Löngu höggin hafa verið ágæt hjá velflestum flokkunum, þeir kynnt stefnur sínar og baráttumál hver á sinn hátt en svo nokkur sem hafa misst einbeitinguna þegar að nákvæmari útfærslum leiksins hefur komið, hætt að hugsa um leikinn og farið að einbeita sér að því sem mótspilaranir hafa verið að gera eða sagt í fortíðinni. Hætt að pútta, farið af vel slegnu gríninu ofan í sandgryfjurnar og haldið að þar ætti að drullumalla.

Svona hefur þetta alltaf verið frá því að ég man eftir mér. Sem flest gert til að ná höggi á manninn, frekar en að ræða málefnin. Með tilheyrandi sársauka fyrir þá sem fyrir verða og vita sig hafa hlaupið á sig, sumir kannski bætt sig á meðan að öðrum verður aldrei viðbjargandi. Eins og oft vill vera.

Það styttist í kjördag þar sem við tökum okkar persónulegu ákvörðun um hvernig við viljum að samfélag okkar þróist í vonandi næstu fjögur ár með ákvörðunum sem geta teygt sig langt inn í framtíðina. Flokkarnir hafa slegið löngu höggin og eftirláta okkur púttin, svona svipað og gert er þegar spilað er „Texas scramble“ í golfi þar sem besti boltinn er valinn.

Næsta hola gekk miklu betur hjá mér. Ég sá að boltinn lá utarlega á gríninu og möguleiki á góðu pari, tækist mér vel upp. Sá að strákurinn var orðinn nokkuð óþolinmóður þar sem ég gekk utan við grínið, beygði mig stirðlega og reyndi að finna sem bestu leið fyrir boltann. Sá svo eina sem virtist geta virkað vel fyrir mig. Léti ég boltann fara hæfilega hratt og í stóru C í átt að holunni átti ég möguleika á pari. Gerði allt eftir bókinni, flottar æfingasveiflur og lét svo vaða. Boltinn fór fyrst hægt og herti svo á sér og endaði í miðri holunni. Gott par og þarna lærði ég vonandi í eitt skipti fyrir öll að það skiptir máli að hafa hausinn í leiknum.